Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
22

Samantekt frá fyrsta degi Smáþjóðaleika

28.05.2019

Fjölmargar íþróttagreinar fóru fram í dag á Smáþjóðaleikunum. Íslendingar áttu keppendur í borðtennis, blaki, körfuknattleik, sundi og júdó. Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ, ferðaðist á milli keppnisstaða í dag og fylgdist m.a. með keppni í borðtennis, júdó og körfuknattleik. 

Íslenska kvennaliðið í borðtennis tapaði 3:0 á móti Möltu. Liðið skipuðu Aldís Rún Lárusdóttir, Agnes Brynjarsdóttir og Stella Karen Kristjánsdóttir. Agnes spilaði í dag sinn fyrsta A-landsliðsleik og er hún aðeins 12 ára gömul. Á morgun spila stelpurnar við Svartfjallaland kl.10:00 að staðartíma.
Íslenska karlaliðið í borðtennis spilaði á móti sterku liði Mónakó. Tapaðist sá leikur 3:0. Liðið skipuðu Magnús Jóhann Hjartarson, Magnús Gauti Úlfarsson og Ingi Darvis Rodriguez. Á morgun kl.11:45, spila þeir á móti heimamönnum í Svartfjallalandi, en sigurvegararnir úr þeim leik komast í undanúrslit.
Einstaklingskeppni í júdó fór fram í dag og unnu íslensku keppendurnir til fernra verðlauna. Egill Blöndal hlaut silfurverðlaun eftir spennandi úrslitaglímu í -90 kg flokki við Schwendingar frá Liechtenstein. Egill var sókndjarfur alla glímuna og leiddi hana en þegar 24 sekúndur voru eftir jafnaði andstæðingur hans og fór glíman í gullskor. Þar hafði andstæðingur Egils betur og því voru það silfurverðlaunin sem féllu til Egils að þessu sinni. Alexander Heiðarsson, Árni Lund og Þór Davíðsson unnu allir til bronsverðlauna í sínum flokkum. Aðrir keppendur stóðu sig með sóma en komust ekki á pall að þessu sinni. Nú verður hvílt í einn dag og svo keppt í liðakeppninni á fimmtudaginn.

Íslenska kvennalandsliðið í körfuknattleik lagði Möltu í dag, í sínum fyrsta leik á Smáþjóðaleikunum, 61:35. Íslensku stúlkurnar spiluðu vel og var góð stemmning í hópnum. Þóra Krist¬ín Jóns¬dótt¬ir og Hall¬veig Jóns¬dótt¬ir skoruðu 11 stig hvor og voru stiga¬hæst¬ar í ís¬lenska liðinu. Helena Sverr¬is¬dótt¬ir skoraði 10 stig og þær Hild¬ur Björg Kjart¬ans¬dótt¬ir og Sara Rún Hinriks¬dótt¬ir 8 stig hvor.
Karlalandsliðið í körfuknattleik tapaði gegn Lúxemborg með tíu stigum, 77:67, í sínum fyrsta leik á Smáþjóðaleikunum. Íslenska liðið var með forystuna mestan hluta leiksins en gaf aðeins eftir í síðasta leikhlutanum sem var æsispennandi fram á síðustu mínútu. Elv¬ar Már Friðriks¬son var stiga¬hæst¬ur í ís¬lenska liðinu með 16 stig og gaf 6 stoðsend¬ing¬ar. Gunn¬ar Ólafs¬son kom næst-ur með 13 stig og Krist¬inn Páls¬son skoraði 9 stig.
Á morgun leika karlarnir gegn Möltu kl.15:30 (13:30 að íslenskum tíma) og konurnar kl.17:45 gegn heimastúlkum í Svartfjallalandi (15:45 að íslenskum tíma).

Karlalandsliðið í blaki mætti Svartfellingum í sínum fyrsta leik í keppninni. Fyrirfram var Svartfellingum spáð góðu gengi á mótinu og því búist við að á brattann yrði að sækja. Byrjunarlið Íslands var skipað þeim Hafsteini og Kristjáni Valdimarssonum á miðjunum, Theódóri Óskari Þorvaldssyni og Ævari Frey Birgissyni á köntunum, Bjarka Benediktssyni í díó og Mána Matthíassyni í uppspil. Íslendingar unnu fyrstu hrinu, en Svartfellingar næstu þrjár, og unnu leikinn 3:1. Stigahæstir í íslenska liðinu voru Theódór Óskar Þorvaldsson með 14 stig og Ævar Freyr Birgisson með 13. Næsti leikur íslenska karlaliðsins er á morgun klukkan 14 gegn San Marínó.
Íslenska kvennalandsliðið í blaki mætti Kýpur í morgun í fyrsta leik sínum í Svartfjallalandi. Byrjunarlið Íslands var skipað þeim Jónu Guðlaugu Vigfúsdóttur og Helenu Kristínu Gunnarsdóttur á köntunum, Gígju Guðnadóttur og Söru Ósk Stefánsdóttur á miðjunum, Thelmu Dögg Grétarsdóttur í díó og Önu Mariu Vidal Bouza í uppspil og Kristinu Apostalovu í stöðu frelsingja. Kýpur vann leikinn 3-0. Stigahæst í íslenska liðinu var Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir með 14 stig. Íslenska liðið mætir San Marínó á morgun kl.11 að staðartíma.

Íslenska landsliðið í tennis keppti ekki í dag sökum mikillar rigningar undanfarna daga og voru tennisvellirnir því ekki keppnishæfir. Keppni hefst um leið og veðuraðstæður leyfa.

Sundkeppni Smáþjóðaleikanna hófst í dag, en hún er með töluvert öðru sniði en áður hefur tíðkast á leikunum. Engin riðlakeppni er að morgni heldur synt í beinum úrslitum eftir hádegi og búið er að fjölga greinum og fækka dögum.
Dagurinn í dag skilaði Íslandi einum gullverðlaunum, með sigri Eyglóar Óskar Gústafsdóttur í 200 metra baksundi og bronsverðlaunum í 4x100 metra skriðsundi/boðsundi karla. Þá bættu þær Jóhanna Elín Guðmundsdóttir og Kristín Helga Hákonardóttir tíma sína í 100 metra skriðsundi og María Fanney Kristjánsdóttir bætti tíma sinn í 200 metra flugsundi. Allt flottar sundkonur sem eiga framtíðina fyrir sér.
Í 400 metra skriðsund/boðsundi synti íslenska karlasveitin á 7. braut og kom í mark á tímanum 3;29,60 sem skilaði þeim bronsverðlaunum eins og áður sagði. Sveitina skipuðu þeir Kristinn Þórarinsson, Kristófer Sigurðsson, Kolbeinn Hrafnkelsson og Dadó Fenrir Jasminuson. Þeir náðu að gera sundið mjög skemmtilegt og spennandi fyrir okkur sem fylgdumst með.
Nánari upplýsingar um einstök úrslit íslenska sundhópsins er að finna á heimasíðu Sundsambands Íslands,
Upptökur af öllum sundum og verðlaunaafhendingum verða settar inn á facebook síðu SSÍ.

Vefsíða leikanna.

Myndasíða ÍSÍ frá Smáþjóðaleikum 2019.