Beint á efnisyfirlit síðunnar

Ísland tók fyrst þátt á Ólympíuleikunum í London 1908 og svo aftur í Stokkhólmi 1912. Árið 1920 tók einn Íslendingur þátt en keppti fyrir Danmörku þar sem hann stundaði nám.
Ísland tók ekki þátt í Ólympíuleikum 1924, 1928 og 1932 vegna slæms efnahagsástands. Síðan 1936 hafa Íslendingar tekið þátt í öllum leikum nema vetrarleikunum í Sapparo í Japan 1972.

Fjórum sinnum hafa Íslendingar staðið á verðlaunapalli á Ólympíuleikum. Fyrstur Íslendinga til að vinna til verðlauna á Ólympíuleikum var Vilhjálmur Einarsson silfurverðlaunahafi í þrístökki í Melbourne árið 1956. Á leikunum í Los Angeles árið 1984 vann Bjarni Friðriksson bronsverðlaun í -95kg. flokki í júdó. Fyrsta íslenska konan til að vinna til verðlauna var Vala Flosadóttir. Vala hlaut bronsverðlaun í stangarstökki á Ólympíuleikunum í Sydney 2000.  Ísland hlaut síðan silfurverðlaun í handknattleik karla á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008.

 

SAGA ÓLYMPÍULEIKANNA

Skráð saga Ólympíuleikanna hefst 776 f.Kr. Voru þeir haldnir fjórða hvert ár í borginni Ólympíu allt til ársins 394 e.Kr. þegar þeir voru bannaðir. Fyrir um 2500 árum urðu Grikkir brautryðjendur á flestum sviðum menningar-, félags- og stjónmála, trúmála og lista. Þessi saga, sem á sér ekki hliðstæðu í veröldinni, átti sér nokkurn aðdraganda í eldri menningarsamfélögum við Miðjarðarhaf, t.d. hjá Krítverjum, Mýkeníumönnum, Föníkumönnum og ýmsum þjóðum Litlu-Asíu. Grikkir tóku sig til og bjuggu til fyrstu lýðræðissamfélögin, komu með ótal nýjungar í margvíslegum vísindagreinum (t.d. læknisfræði, stærðfræði, og stjörnuspeki), reistu byggingar sem áttu sér ekki hliðstæðu og unnu ódauðleg listaverk í nánast öllum greinum menningar og lista (t.d. höggmyndalist, ljóðlist og leiklist). Í dag er Grikkland eitt ríki, en skiptist á fornum tíma í hundruð smáríkja þar sem íbúar áttu sér sameiginlegt tungumál og menningu og litu því á sig sem eina þjóð. Síðar dreifðu þeir sér um ríki Miðjarðarhafs, fluttu með sér menningu og listir og höfðu þannig gríðarleg áhrif víða. Sérstaklega skal nefnt að verulegur hluti menningar Rómverja á fornum tíma byggja á þessum gríska grunni.

Íbúar hinna mörgu borgríkja tóku að senda fremstu íþróttagarpa sína til borgarinnar Olympíu í Elís-héraði á vestanverðum Pelópsskaga á 7. öld f. Kr. og er talið að hinir fyrstu eiginlegu Ólympíuleikar hafi verið haldnir þar árið 776 f.Kr. Þessir leikar snérust ekki eingöngu um íþróttakeppnina, þeir voru ekki síður trúarhátíð til heiðurs Seifi, sem var æðsti guðinn í trú Grikkja. Reyndar voru fleiri leikar í upphafi, svipaðir Ólympíuleikum og skal þar frægasta nefna leika sem kenndir eru við borgríkið Delfí í Mið-Grikklandi, en þar átti að vera miðja alheimsins. Þar var keppt í ýmsum íþróttagreinum til heiðurs Apolon, sem var guð heilbrigðis, hreysti og líkamsfegurðar. 

Í Olympíu höfðu verið byggð glæsileg íþróttamannvirki, ásamt hofum og bústöðum umsjónarmanna hvers konar. Í upphafi voru leikarnir einungis héraðsleikar í Elis þar sem eingöngu var keppt í kapphlaupi (192.27 m.) Þá sem síðar voru það einvörðungu frjálsbornir karlmenn sem tóku þátt, en giftum konum var meinuð þátttaka og reyndar máttu þær ekki heldur horfa á karlana keppa, einungis ungum, ógiftum stúlkum var slíkt heimilt. Eftir því sem árin liðu fjölgaði keppnisgreinum og leikarnir urðu nk. þjóðarleikar eða leikar þar sem íbúar borgríkjanna reyndu með sér í margvíslegum íþróttum. Helstu greinar voru auk kapphlaups, glíma, hnefaleikar, kringlukast, spjótkast, langstökk, fimmtarþraut og kappakstur fereykisvagna. Þrátt fyrir að borgríkin grísku væru ekki fjölmenn komu allt að 45 þúsund mannst til að fylgjast með og gátu þeir allir verið á sama tíma á ólympíuleikvanginum. 

Ólympíuleikar að fornu fóru fram í júlí fjórða hvert ár og stóðu þeir yfir í viku. Ýmsar erjur á milli borgríkja voru lagðar af á þessum tíma og má segja að friðarboðskapur ólympíuhreyfingar nútímans eigi rætur í þeirri staðreynd. Reyndar stóðu leikarnir yfir í tvær vikur til viðbótar, en þær voru einkum notaðar til helgihalds hvers konar. Fólk kom hvaðanæva að úr Grikklandi, einkum framámenn hvers konar og því var kjörið tækifæri til þess að setja niður deilur á slíkum stað, enda voru oft gerðir þar friðarsamningar. Ljóðskáld, hljóðfæraleikarar fjölmenntu, svo og kaupsýslumenn. Ólympíuleikarnir urðu því allt í senn trúarhátíð, markaður og íþróttaleikar. Fjölmargar sögur eru til af sigurvegurum á Ólympíuleikum og voru Grikkir iðnir við að færa í stílinn eins og þeim er gjarnan tamt. Þeir voru hetjur í heimahéraði og nutu ýmissa fríðinda vegna afreka sinna. Það er ekki að undra því Grikkir lögðu alla tíð mikið uppúr líkamshreysti, sem varð höfðuðdyggð í mörgum borgríkjum og hefur Sparta á miðjum Pelópsskaga verið þar oftast nefnd til sögunnar. En hjá flestum forn Grikkjum var hreysti nauðsynlegur þáttur í uppeldi og daglegu lífi þar sem hún tvinnaðist saman við ýmsa aðra uppeldisþætti í heilsteyptum einstaklingi. Ólympíuleikarnir fóru fram á fjögurra ára fresti (ein “olympíaða”) í hartnær 1100 ár. Síðustu leikarnir að fornu voru haldnir árið 393 e. Kr., en eftir það voru þeir bannaðir, einkum vegna tengsla þeirra við heiðna trú. Byggingarnar enduðu í niðurníðslu og hof Seifs hrundi loks árið 426. Í kjölfarið fylgdu flóð og jarðskjálftar, sem máðu út flest ummerki eftir þessa merkustu íþróttahátíð fyrr á tímum. En hugsjónir Ólympíuleikanna lifðu og voru síðan endurvaktar í lok 19. aldar. 2000/IH

    Á döfinni

    23