Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

20.09.2024 - 21.09.2024

Ársþing SKÍ 2024

Ársþing Skíðasambands Íslands verður haldið...
10.10.2024 - 10.10.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
01.11.2024 - 30.11.2024

Syndum

Verkefnið Syndum hefst 1. nóvember og stendur...
18

Um Afrekssjóð ÍSÍ

Upphaf afrekssjóða ÍSÍ má rekja til 6. júlí 1977 þegar að frumkvæði framkvæmdastjórnar Íþróttasambands Íslands var stofnaður Afreksmannasjóður Í.S.Í.  Má rekja sjóðsstofnunina til framlags ríkisstjórnar Íslands að upphæð 3 m.kr. er veitt var þann 15. febrúar 1977 vegna sérstakra verkefna íþróttamanna, en fljótlega upp úr því hófst undirbúningsstarf að því að setja sjóðnum reglugerð og móta starfstilhögun hans.  Tekjur sjóðsins fyrsta árið voru kr. 3.380.000,- og veittir voru styrkir til fjögurra sérsambanda það árið, HSÍ, FRÍ, JSÍ og LSÍ.  Ári síðar ákvað framkvæmdastjórn Í.S.Í. að 10% af fjárveitingu ríkisins til íþróttasambandsins færi til Afreksmannasjóðar, en auk þess hafði sjóðurinn tekjur frá ýmis fjárframlögum.  Fimm sérsambönd, HSÍ, FRÍ, SKÍ, JSÍ og LSÍ hluti styrk það árið.

 

Tilgangur sjóðsins var frá upphafi að styrkja þau sérsambönd, þar sem hópar eða einstaklingar á þeirra vegum höfðu náð umtalsverðum árangri í ákveðnum alþjóðamótum, sbr. 9. gr. reglugerðar sjóðsins og í öðru lagi vegna undirbúnings að þátttöku í þessum mótum, þegar líkur væru á að góður árangur næðist.
Mikil breyting átti sér stað á íslensku krónunni árið 1980 þegar tvö núll voru felld niður og 1.000 kr. urðu að 10 kr.  Tölur um framlög til Afreksmannasjóðs og úthlutanir urðu því eftir það færðar í nýkrónum, eins og segir í gögnum Í.S.Í.  Í töflunni hér að ofan má sjá tekur sjóðsins og styrkveitingar.
 
Fyrstu fimm ár Afreksmannasjóðs Í.S.Í. hlutu átta sérsambönd, FRÍ, GSÍ, HSÍ, JSÍ, KSÍ, KKÍ, LSÍ og SKÍ, styrk úr sjóðnum, samtals að upphæð kr. 541.800,-
Á árinu 1984 var í fyrsta sinn ákveðið að styrkja einstaklinga til undirbúnings þátttöku í stórmótum og hlutu níu íþróttamenn styrk að upphæð kr. 30.000 hver vegna Ólympíuleikanna í Los Angeles.
Samkvæmt reglugerð fór úthlutun styrkja fram tvisvar á ári, þ.e. í maí og í nóvember.
Ef horft er áfram til eldri gagna og þeirrar vinnu sem íþróttahreyfingin setti í gang á árum áður  kemur margt fróðlegt í ljós.  Þannig var skipuð sérstök Afreksíþróttanefnd, (nefnd sem skipuð var af framkvæmdastjórn Í.S.Í. þann 11. janúar 1990) og henni falið það verkefni að kanna forsendur fyrir og móta stefnu í afreksíþróttum.  Nefndin skilaði af sér ítarlegri skýrslu til framkvæmdastjórnar Í.S.Í. þann 21. febrúar 1991.
Góðar umræður voru um skýrsluna á Sambandsstjórnarfundi Í.S.Í. þann 4. maí 1991 og þar komu fram atriði sem enn í dag (2017) þarf að hafa í huga við mótun afreksstefnu sem og hvernig skuli ráðstafa fjármunum íþróttahreyfingarinnar.  Má þar m.a. nefna að gæta jafnvægis hópíþrótta og einstaklingsíþrótta, að vandasamt sé að leggja viðmiðun við heimsafreksskrá til grundvallar við mat á árangri og að nauðsynlegt sé að samvinna sé við íþróttahéruðin og (á þeim tíma) við Ólympíunefnd.
 
Í umræddri skýrslu var reiknuð út fjármagnsþörf afreksíþróttasjóðs miðað við forsendur sem lágu fyrir í tveimur tillögum sem voru til umfjöllunar á Alþingi.  Tillagan gerði ráð fyrir að 40 afreksíþróttamenn yrðu teknir á launaskrá og launin miðuð við laun háskólakennara.  Mánaðarlaun á þeim tíma voru 77.922 kr. og árslaun þessara 40 afreksíþróttamanna hefði þá numið 37.402.560 kr.  Jafnframt var gert ráð fyrir að Í.S.Í. kæmi með framlag sem væri tekið af óskiptum lottótekjum og næmi 1/3 af framlagi ríkisins.  Sú upphæð var þá reiknuð út sem  12.467.520 kr.  Á þeim tíma var Ólympíunefnd Íslands sjálfstæð eining og gerði áætlun ráð fyrir sama framlagi frá ÓÍ eins og framlagi Í.S.Í.  Heildarframlag til Afreksíþróttasjóðs hefði þá numið 62.337.600 kr. á ári, miðað við ofangreindar forsendur.
Tímamótasamningur var loksins gerður við ríkisvaldið árið 1998 og voru fyrstu  greiðslur til útborgunar í ársbyrjun 1999.  Tvöfaldaðist á þeim tímapunkti það fjármagn sem var til úthlutunar en fyrir þann tíma voru einu tekjur sjóðsins hlutdeild í hagnaði ÍSÍ af lottó tekjum.   Alls var úthlutað rúmum 17 m.kr. það ár og árið 1999 var sú tala rúmar 20 m.kr.  
Árið 1998 voru t.d. styrkir til FRÍ vegna verkefna Jóns Arnars Magnússonar 1.920.000 kr. og vegna Völu Flosadóttur 960.000 kr.  Sundsamband Íslands fékk styrk vegna Arnars Arnarssonar að upphæð 480.000 kr.  Þarna var um að ræða nokkra af A, B og C styrkjum sjóðsins, en þar til fyrir nokkrum árum voru þessir styrkir í sömu krónutölu og árið 1998, enda hafði sjóðurinn ekki bolmagn til að hækka þessar upphæðir.  Þessir þrír einstaklingar náðu frábærum árangri í sínum greinum á þessum árum og voru Ólympíuleikarnir í Sydney árið 2000 þeir leikar sem Íslendingar hafa náð einum besta árangri í einstaklingsgreinum. 
 

Árlegt framlag ríkisins til sjóðsins  á árunum 1999-2002 var 10 m.kr. frá ríkinu.  Samningur ríkisins við sjóðinn var endurnýjaður 2003-2005 og var framlag ríkisins hækkað í 25 m.kr. á ári og jukust úthlutanir sjóðsins í rúmar 40 m.kr. á ári.  Einnig lagði ríkið fram fé í nýjan sjóð sem styrkti verkefni ungra og framúrskarandi efnilegra íþróttamanna. Framlag ríkisins til sjóðsins á árunum 2006-2008 var aftur hækkað og þá í 30 m.kr. á ári.  Styrkveitingar hækkuðu samhliða því í um 50 m.kr. á ári.  Áfram var um 30 m.kr. framlag að ræða á árinu 2009 en í kjölfar fjármálahruns var framlag ríkisins til sjóðsins lækkað árið 2010 í 25,5 m.kr.  Það ár ákvað stjórn ÍSÍ samt sem áður að auka úthlutun úr sjóðnum og ganga þannig á höfuðstól sjóðsins enda var þörf sérsambanda mikil í kjölfar fjármálahruns.  Þannig var úthlutun ársins hærri en árin á undan eða tæpar 50 m.kr.  Höfuðstóll sjóðsins byggir á stofnframlagi ÍSÍ, vaxtatekjum og Ólympíusjóði Í.S.Í. sem sameinaður var Afrekssjóði ÍSÍ árið 2006.  Á fjárlögum ársins 2011 lækkaði aftur framlag ríkisins niður í 24,7 m.kr. en þrátt fyrir það náðist að halda úthlutun sjóðsins í rúmlega 55 m.kr. með því að ganga áfram á höfuðstól sjóðsins.
Á fjárlögum fyrir Ólympíuárið 2012 var framlag ríkisins á fjárlögum 24,7 m.kr.  Sú upphæð hækkaði í 34,7 m.kr. eftir umræður á Alþingi og var það hækkun frá fyrri árum.  Þá var samþykkt 15 m.kr. aukastyrkveiting til ÍSÍ vegna Ólympíuleikanna í London 2012 sem var úthlutað í gegnum Afrekssjóð ÍSÍ.  Má segja að ákveðið skref hafi verið tekið á því ári varðandi fjármögnun sjóðsins og þannig eflingu afreksstarfs á Íslandi.
Á fjárlögum fyrir 2013 hækkaði framlag ríkisins í 55 m.kr. og fyrir árin 2014 og 2015 var talan 70 m.kr. fyrir hvort ár.  Ein mesta hækkun á framlagi til sjóðsins varð síðan 2016 þegar úthlutað var 100 m.kr. á fjárlögum til Afrekssjóðs ÍSÍ.  Var það þá bæði hæsta einstaka hækkun til sjóðsins og hæsta framlag sem sjóðurinn hefur hlotið á fjárlögum ríkisins.
 
Mennta- og menningarmálaráðuneytið og Íþrótta og Ólympíusamband Íslands undirrituðu þann 28. júlí 2016 tímamótasamning til þriggja ára um stóraukið fjárframlag ríkisins til afreksíþrótta á Íslandi. Í samningnum kom fram að framlag ríkisins til Afrekssjóðs ÍSÍ mun hækka í áföngum úr 100 milljónum á fjárlögum 2016 í 400 milljónir á árinu 2019 og er því um fjórföldun að ræða.