Guðbjörg Jóna gullverðlaunahafi
Ólympíuleikar ungmenna fóru fram í Buenos Aires 6.- 18. október s.l. Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir náði þeim merka áfanga að vera fyrst Íslendinga til að vinna til gullverðlauna á Ólympíuleikum ungmenna og þar með fyrst Íslendinga til að vinna til gullverðlauna á leikum á vegum Alþjóðaólympíunefndarinnar (IOC). Þessi flotta íþróttakona byrjaði að æfa frjálsíþróttir 10 ára gömul. Í nýjasta blaði ÍSÍ frétta er viðtal við Guðbjörgu Jónu sem sjá má hér fyrir neðan. Tengil á ÍSÍ fréttir má sjá neðst í fréttinni.
Hvaða íþróttir hefur þú æft?
Ég hef í rauninni ekki æft neitt nema frjálsar en prófaði fullt af íþróttum eins og handbolta, fótbolta, blak, fimleika. Síðan prófaði ég eina æfingu í karate og tennis. Ég fann mig ekki í neinu nema frjálsum.
Hvað var það sem kveikti áhuga þinn á því að byrja að æfa frjálsíþróttir?
Mér hefur alltaf fundist gaman að hlaupa og ég hef líka alltaf hlaupið hratt. Um jólin 2008 dró vinkona mín mig á frjálsíþróttaæfingu. Á þessum æfingum vorum við alltaf í þrautabrautum og mig langaði að hlaupa og stökkva eins og ,,stóru krakkarnir’’ þannig að ég hélt áfram. Síðan þá hefur keppnisskapið og ánægjan þróast svo mikið að ég get ekki hætt.
Hvenær ákvaðstu að einbeita þér að hlaupum?
Það var árið 2016 í Gautaborg þegar ég setti fyrsta Íslandsmetið mitt bæði í 80m og 300m hlaupi.
Áttir þú þér fyrirmyndir í íþróttum þegar að þú varst yngri?
Nei, ég fylgdist ekki mikið með frjálsum fyrr en árið 2015, en þá var Usain Bolt og Allyson Felix í miklu uppáhaldi. Nú í dag er það ennþá Allyson Felix.
Telur þú þig vera fyrirmynd?
Já, ég tel mig vera fyrirmynd. Ég vil sýna að ef maður vill eitthvað þá á maður að vera viljugur til þess að leggja á sig ýmislegt til þess að ná því. Það er líka mikilvægt að hafa gaman af því sem maður gerir. Íþróttir eru skemmtun en ekki kvöð.
Hver var upplifun þín af YOG 2018?
YOG var svo ótrúlega skemmtileg og gefandi ferð. Að vera í burtu að heiman í þrjár vikur var dálítið skrýtið en þetta leið svo hratt, bæði því það var svo gaman og að ég var með svo ótrúlega skemmtilegum krökkum. Ég kynntist líka mörgu fólki og ég veit að ég mun sjá það einhvern tímann aftur, þess vegna er mjög mikilvægt að mynda tengsl. YOG gaf mér svo mikla reynslu og í framtíðinni mun þetta mót koma sér svo sannarlega vel fyrir mig og hina sem fóru á þetta mót.
Hver eru þín helstu markmið, t.d. í tengslum við stórmót?
Helsta markmiðið mitt í framtíðinni er að bæta mig, því það er alltaf eitthvað sem maður getur lagað, það er það sem ég elska við frjálsar. Ef ég bæti mig þá er ég sátt. Mig langar líka að komast á Evrópumeistaramót og Heimsmeistaramót fullorðinna og Ólympíuleika en það verður allt að koma í ljós. Ég á enn eftir fullt af aldursflokkamótum sem ég þarf að einbeita mér að fyrst.
Hvað hefur iðkun íþrótta kennt þér?
Íþróttir gefa manni svo mikið. Ég er búin að læra svo mikið á sjálfa mig. Ég hef kynnst fullt af fólki bæði hér á landi og í útlöndum. Ég hef lært að ef mér gengur ekki vel þá þarf ég bara að leggja enn meira á mig til að ná markmiðum mínum. Ég hef lært að samgleðjast með þeim sem gengur vel, þó svo að ég tapi. Íþróttafólk myndar svo sérstök tengsl, því íþróttamenn vita hvað aðrir íþróttamenn hafa þurft að gera til þess að komast svona langt.
Hvernig sérðu ferilinn þinn fyrir þér?
Ég veit að ég mun klára menntaskóla hér á landi, en svo veit ég ekki hvort mig langi erlendis eða ekki. Ég held samt að ég verði hér því mér finnst svo gott að æfa hjá Brynjari þjálfara mínum. Ég væri ekki búin að afreka svona mikið ef ekki væri fyrir hann. Ég ætla samt ekki að hætta að vinna eða vera í skóla vegna æfinga, því mér finnst mikilvægt að gera eitthvað annað líka þar sem að íþróttirnar endast ekki alla tíð.
ÍSÍ fréttir má lesa hér í pdf eða á Issuu-síðu ÍSÍ hér.