Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

25.10.2024 - 26.10.2024

Landsþing LH 2024

Ársþing Landssambands hestamannafélaga verður...
01.11.2024 - 30.11.2024

Syndum

Verkefnið Syndum hefst 1. nóvember og stendur...
21.11.2024 - 21.11.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
12

Æfum alla ævi - Spennandi verkefni hjá HSÞ

11.12.2018

Í nýjasta blaðinu af ÍSÍ fréttum er viðtal við Gunnhildi Hinriksdóttur, framkvæmdastjóra Héraðssambands Þingeyinga (HSÞ),en hún hefur nýverið tekið við starfinu. HSÞ er víðfemt íþróttahérað með starfsemi allt frá Grenivík að Bakkafirði, eftir sameiningu íþróttahéraðanna í Norður- og Suður-Þingeyjarsýslu árið 2007. HSÞ fagnar 105 ára afmæli á næsta ári og að mati Gunnhildar er framtíðin björt fyrir héraðssambandið. HSÞ vinnur nú að því að gerast Fyrirmyndarhérað ÍSÍ. Viðtalið við Gunnhildi má lesa hér, en tengill á ÍSÍ fréttir má sjá neðst í fréttinni.

Hver er þín saga Gunnhildur Hinriksdóttir?
Ég er fædd og uppalin í Mývatnssveit. Skólaganga mín leiddi mig um víða veröld, fyrst í Lauga sem var alveg dásamlegt, vistarlífið, aðgangurinn að íþróttahúsinu, maturinn, þvotturinn. Ég kláraði stúdentinn á Akureyri og fylgdi svo kærastanum í háskólanám til Bandaríkjanna við the University of Georgia í Athens í Georgíu. Þar lærði ég íþróttafræði og æfði og keppti í frjálsíþróttum fyrir skólann. Þá lá leiðin aftur heim þar sem ég bjó í Reykjavík og flutti svo á Laugarvatn en þar bjó ég í um 15 ár og kenndi við íþróttafræðasetur HÍ. Ég reyndar skrapp í eitt og hálft ár aftur til Bandaríkjanna árið 2006 til að ná mér í meistaragráðu í íþróttafræði frá the University of Illinois í Urbana-Champaign í Illinois. Ég var alltaf á einhverjum hlaupum, hoppi eða skoppi þegar ég var krakki og fannst frjálsíþróttirnar mest heillandi. Blak var reyndar áhugavert en ég ákvað að geyma að æfa það þar til ég væri orðin gömul og hætt í frjálsum. Hreyfing og íþróttir hafa verið stór hluti af mér alla tíð og reyndar fjölskyldunni allri. Ég er gift Sigurbirni Árna Arngrímssyni og eigum við þrjú börn 9-15 ára sem öll eru að sprikla í íþróttum. Í dag bý ég á Laugum í Reykjadal og teyga í mig norðlenska loftið.

Hvers vegna ákvaðst þú að sækja um starf sem framkvæmdastjóri HSÞ?
Við fjölskyldan fluttum norður m.a. vegna þess að Háskóli Íslands ákvað að hætta með íþróttafræði á Laugarvatni og maðurinn minn fékk skólameistarastöðu hér við Framhaldsskólann á Laugum. Ég var fyrst í leyfi frá háskólanum og svo þegar staðan var auglýst ákvað ég að sækja um þar sem ég var flutt norður. Ég hef ekki verið mikið hérna megin við borðið þegar kemur að íþróttastarfinu en fannst spennandi að fá að takast á við það.

Hvernig er að vera framkvæmdastjóri íþróttahéraðs?
Það er nú svolítið áhugaverð spurning. Staðan er aðeins 50% staða og dugar til að svamla um á yfirborðinu. Ég er í raun enn að átta mig á umfanginu og því sem þarf að gera. En það hefur mikið breyst í íþróttalífi og -skipulagi hér á Íslandi á undanförnum árum. Eftir að stóra Landsmóti UMFÍ var breytt þá er hlutverk héraðssambanda varðandi öflug héraðslið breytt og þannig einnig ákveðinni grunnhugsun í starfinu. Félögin og deildir þeirra eiga í meiri samskiptum beint við sérsamböndin varðandi þeirra mál. Hér innan HSÞ var samþykkt á síðasta ársþingi að móta stefnu HSÞ á sviði hreyfingar, íþrótta og lýðheilsu sem fékk heitið Æfum alla ævi. Við erum nú að reyna að tryggja fjárhagslegan grundvöll þess verkefnis en við teljum að það sé mikilvægt að fara í þessa stefnumótum til þess að gera starf HSÞ markvissara og stuðning við aðildarfélögin betri.

Er mikið í gangi og eru verkefnin fjölbreytt?
Verkefnin eru nú nokkuð hefðbundin líklega og sæmilega fjölbreytt. Skemmtilegast finnst mér þegar ég get aðstoðað aðildarfélög við það sem þau eru að brasa. Annars þá hefur starfið á svæðinu verið svolítið rysjótt, sum aðildarfélög eru með mjög virka og fína starfsemi meðan önnur eiga erfiðara uppdráttar, m.a. vegna íbúaþróunar. Í ár hafa verið haldin HSÞ-mót í frjálsíþróttum og sundi en betur má ef duga skal. Þörf fyrir svona innanhéraðsmót hefur kannski líka breyst með tilkomu betri samgangna. Félög og foreldrar eru dugleg að fara um allt land til þess að taka þátt í mótum og viðburðum, bæði sér til skemmtunar en einnig til að fá fjölbreyttari keppni sem er vel. Ég persónulega tel það mikilvægt að vera með keppnir á sambandssvæðinu m.a. vegna vegalengda en líka til að búa til ákveðna samheldni og þá tilfinningu að tilheyra. Öll viljum við tilheyra og íþróttastarf er kjörinn vettvangur. Stærsta verkefnið framundan er þessi stefnumótun, Æfum alla ævi, og eins að gera héraðssambandið að Fyrirmyndarhéraði ÍSÍ. Bæði verkefnin eiga eftir að bæta umgjörðina í starfi HSÞ til muna.

Er framtíðin björt fyrir HSÞ?
Já, framtíðin er björt, allavega vil ég hafa hana þannig. Við þurfum að fara í svolitla greiningarvinnu með stöðu félaganna hér á svæðinu og hvernig við getum stutt þau betur. Starfssvæði HSÞ er gríðarstórt, nær allt Norð-Austurland og tekur það t.d. formanninn um 200 km að skutlast á fund með mér hér á skrifstofunni og þá eru enn eftir um 60 km inn á Grenivík. Hér í Þingeyjarsýslum hafa alltaf verið efnilegir íþróttakrakkar og er engin breyting á því. Einnig hefur verið sterk hefð fyrir sjálfboðaliðastarfi sem er íþróttafélögunum nauðsynlegt. Með breyttum tíðaranda, fjölbreyttari afþreyingarmöguleikum og samskiptaleiðum er enn mikilvægara að styrkja þá sem standa í þessu starfi. Nú geta krakkar spilað saman tölvuleik þó svo að heilu heimsálfurnar skilji þau að - við þurfum helst að ná því líka varðandi hreyfingu og skipulagðar íþróttaæfingar. Allavega að byrja á meira samstarfi og samvinnu og ég vona svo sannarlega að aðildarfélögum HSÞ beri sú gæfa að taka þátt í stefnumótun vegna Æfum alla ævi af fullum krafti svo starfið á svæðinu geti dafnað með sem bestu móti.

Eitthvað að lokum?
Er ekki við hæfi að óska landsmönnum öllum gleði og farsældar í verkefnum komandi árs.

 

 

ÍSÍ fréttir má lesa hér í pdf eða á Issuu-síðu ÍSÍ hér.

 

Myndir með frétt