
Gunnar Alexander Huseby
Gunnar Alexander Huseby var útnefndur í Heiðurshöll ÍSÍ á 72. Íþróttaþingi ÍSÍ þann 18. apríl árið 2015.
Gunnar  fæddist 4. nóvember 1923 og lést 28. maí 1995.
Hann hóf ungur að æfa bæði knattspyrnu og frjálsíþróttir og var mjög fjölhæfur.  Á drengjamóti ÍSÍ sumarið 1940, þegar hann var 16 ára, tók hann þátt í 9 greinum af þeim 12 sem keppt var í.  Þar sigraði hann í langstökki, hástökki, kúluvarpi, kringlukasti og 400 m hlaupi og setti drengjamet í báðum síðasttöldu greinunum.
Síðar einbeitti Gunnar sér að kastgreinum, einkum kúluvarpi og kringlukasti og setti fjölda Íslandsmeta.  Sumarið 1944 kastaði hann kúlu 15,50 m, sem var fjórða lengsta kast í heiminum það árið en Gunnari gáfust fá tækifæri á að etja kappi við erlenda íþróttamenn á þessum árum vegna heimsstyrjaldarinnar.
Á Evrópumeistaramótinu í Osló 1946 keppti Gunnar í kúluvarpi og sigraði með yfirburðum. Þá var hann á 23. aldursári. Kastaði hann þar kúlunni 15,56 metra eða 30 cm lengra en næsti maður.  Fyrr þetta sumar hafði hann sett Íslandsmet bæði í kúluvarpi og kringlukasti.  Á Evrópumeistaramótinu í Brussel 1950 varði hann Evrópumeistaratitil sinn – eini íslenski frjálsíþróttamaðurinn sem náð hefur þeim árangri.  Varpaði hann þar kúlunni 16,74 metra sem var nýtt Íslands-, Norðurlanda- og Evrópumet og lengsta kast hans á ferlinum.  Þetta sigurkast var nær hálfum öðrum metra lengra en kast silfurverðlaunahafans og þetta Íslandsmet hans stóð í 17 ár.  Sama ár setti hann einnig Íslandsmet í kringlukasti, 50,13 m sem stóð í mörg ár.
Í hans persónulega lífi skiptust á skin og skúrir en Gunnar var afar vinsæll, dáður og eftirsóttur íþróttamaður þrátt fyrir bresti sína, ekki bara hér á landi heldur einnig á Norðurlöndum og víða í Evrópu. Var honum boðið að keppa víða um heim.  Alls varð Gunnar á sínum ferli tíu sinnum Íslandsmeistari í kúluvarpi, sex sinnum í kringlukasti og tvisvar í sleggjukasti.
Það er ÍSÍ mikill heiður að útnefna Gunnar A. Huseby í Heiðurshöll ÍSÍ.