Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
22

Bjarni Ásgeir Friðriksson

Bjarni Ásgeir Friðriksson, okkar annar verðlaunahafi á Ólympíuleikum og án efa þekktasti júdómaður þjóðarinnar, var útnefndur í Heiðurshöll ÍSÍ þann 29. desember árið 2012.

Bjarni Friðriksson fæddist 29. maí árið 1956. Hann byrjaði að stunda júdó um tvítugt og náði öðru sæti á sínu fyrsta Íslandsmóti árið 1977, en þá hafði hann aðeins æft í eitt ár.

Bjarni varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn í sínum þyngdarflokki árið 1978 og vann fyrsta Íslandsmeistaratitil sinn í opnum flokki árið 1979. Bjarni náði góðum árangri á alþjóðlegum mótum og vann sitt fyrsta alþjóðlega mót árið 1980 á Opna skandinavíska meistaramótinu.

Bjarni keppti í júdó fyrir Íslands hönd á fjórum Ólympíuleikum á sínum íþróttaferli; í Moskvu 1980, í Los Angeles 1984, í Seoul 1988 og í Barcelona 1992.

Á Ólympíuleikunum í Moskvu árið 1980 hafnaði Bjarni í 7.–8. sæti í –95 kg. flokki. Á þessum tíma var hann kominn í hóp bestu júdómanna Evrópu. Bjarni varð Norðurlandameistari í sínum flokki í fyrsta sinn árið 1982 og vann þá alla andstæðinga sína með fullnaðarsigri.

Á Ólympíuleikunum í Los Angeles þann 9. ágúst árið 1984 keppti Bjarni í -95 kg. flokki. Það voru 24 keppendur í júdó á leikunum. Bjarni sat yfir í fyrstu umferð en sigraði síðan Danann Carsten Jensen í annarri umferð og Bandaríkjamanninn Leo White í þriðju umferð. Þar með komst hann í undanúrslit, en tapaði þeirri glímu á móti Douglas Vieira frá Brasilíu. Hann sigraði síðan Ítalann Yuri Fazi í glímu um bronsverðlaunin. Bjarni var þar með annar Íslendingurinn til þess að vinna til verðlauna á Ólympíuleikum. 

Á Ólympíuleikunum í Seoul árið1988 varð Bjarni í 9. sæti í -95 kg. flokki og í Barcelona 1992 féll hann úr keppni í fyrstu umferð. Árið 1989 var í raun besta ár Bjarna að frátöldu bronsárinu á Ólympíuleikunum. Á því ári náði hann meðal annars þeim árangri að verða í fimmta sæti í opnum flokki á Evrópumeistaramótinu. Auk Íslandsmeistaratitla vann Bjarni fimm sinnum til gullverðlauna á Norðurlandamótum. 

Bjarni var valinn Íþróttamaður ársins á Íslandi árið 1990. Bjarni hætti keppni á alþjóðavettvangi árið 1993 að loknu heimsmeistaramótinu í Kanada, en þá hafði hann keppt í sautján ár.

Það er ÍSÍ mikill heiður að útnefna Bjarna Friðriksson í Heiðurshöll ÍSÍ.

Myndasíða ÍSÍ - Bjarni Friðriksson.

Hér má sjá samantekt frá RÚV um Bjarna Friðriksson.