Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

22.10.2026 - 28.11.2019

YOG 2026 - Dakar

Ólympíuleikar ungmenna (YOG) fara fram í...
5

Jón Arnar Magnússon útnefndur í Heiðurshöll ÍSÍ

03.01.2026

 

Í kvöld var Jón Arnar Magnússon útnefndur í Heiðurshöll ÍSÍ og er hann tuttugasti og sjöundi einstaklingurinn sem útnefndur er í höllina góðu.

Framkvæmdastjórn ÍSÍ samþykkti útnefninguna einróma á fundi sínum í nóvember síðastliðnum. Afhending viðurkenningarinnar fór fram í kvöld í beinni útsendingu RÚV þegar úrslit úr kjöri Samtaka íþróttafréttamanna um Íþróttamann ársins 2025 voru tilkynnt.

Jón Arnar Magnússon er fæddur 28. júlí 1969.
Hann hóf snemma keppni í frjálsíþróttum og varð strax sigursæll.

Jón Arnar varð Norðurlandameistari í tugþraut árið 1988 í Svíþjóð. Ári síðar fékk hann fimm gullverðlaun í flokki 15-22 ára á Íslandsmeistaramótinu.

Jón Arnar keppti í tugþraut á Ólympíuleikunum í Atlanta og varð í 12. sæti með 8.274 stig, sem var nýtt Íslandsmet í greininni. Tugþraut er samsett úr tíu greinum, þ.e. þremur hlaupum (100 m, 400 m og 1500 m), 110 m grindarhlaupi, kúluvarpi, kringlukasti, spjótkasti, hástökki, langstökki og stangarstökki.

Meðal árangurs Jóns Arnars er:

  • Bronsverðlaun á EM innanhúss í sjöþraut árið 1996
  • Bronsverðlaun á HM innanhúss í sjöþraut 1997
  • 5. sæti á EM innanhúss í sjöþraut 1998
  • 4. sæti á EM utanhúss í tugþraut 1998
  • 2. sæti á HM innanhúss í sjöþraut 2001
  • Þrjú gullverðlaun og eitt brons á Smáþjóðaleikum 2001
  • 4. sæti á EM innanhúss í sjöþraut 2002
  • 4. sæti á HM í tugþraut 2002
  • 4. sæti á HM innanhúss í sjöþraut 2003

Jón setti fjölda Íslandsmeta á sínum ferli og ennþá standa metin hans í 110 m grindarhlaupi frá 1997, tugþraut frá 1998, 60 m grindarhlaup innanhúss frá 2000, langstökk innanhúss frá 2000 og sjöþraut innanhúss frá 1999. Hann á sem sagt 25-28 ára gömul met sem enginn hefur enn slegið.

Til gamans má geta þess að hann á einnig Íslandsmet í 50 m grindahlaupi frá 2000 og 300 m hlaupi frá 1994.

Jón Arnar var kjörinn Íþróttamaður ársins árin 1996 og 1997.

Það er ÍSÍ mikill heiður að útnefna Jón Arnar Magnússon í Heiðurshöll ÍSÍ.

Myndir með frétt