Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

22.10.2026 - 28.11.2019

YOG 2026 - Dakar

Ólympíuleikar ungmenna (YOG) fara fram í...
5

Íþróttaeldhugi ársins 2025 er Bjarni Malmquist Jónsson

03.01.2026

 

Bjarni Malmquist Jónsson, sem starfað hefur fyrir Umf. Vísi og Ungmennasambandið Úlfljót, var í kvöld útnefndur Íþróttaeldhugi ársins 2025.

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, í samvinnu við Lottó, hefur undanfarin fjögur ár staðið fyrir þeirri nýbreytni, á hófi Íþróttamanns ársins, að útnefna við sama tækifæri Íþróttaeldhuga ársins úr röðum sjálfboðaliða í íþróttahreyfingunni.

Með þessari útnefningu vill ÍSÍ vekja athygli á starfi sjálfboðaliðans og koma á framfæri þakklæti fyrir framlag sjálfboðaliða um land allt en sjálfboðaliðar gegna geysimikilvægu hlutverki hjá öllum íþróttafélögum landsins og gera það að verkum að starfið í hreyfingunni er eins öflugt og raun ber vitni. 

Verðlaunagripurinn, sem Íþróttaeldhugi ársins hlýtur, er hannaður sérstaklega af Sigurði Inga Bjarnasyni gullsmið, fyrir þetta tilefni. 

Þrír einstaklingar voru valdir úr fjölda tilnefninga sem bárust ÍSÍ og voru þau heiðruð í kvöld fyrir þeirra ómetanlegu störf en ásamt Bjarna voru einnig heiðruð:

Árni Þór Grétarsson (handknattleikur), fyrir störf hans fyrir Umf. Selfoss og Hugrún Hjálmarsdóttir (knattspyrna, skíði og blak) fyrir störf hennar fyrir Íþróttafélagið Hött, samstarfsvettvanginn FHL og UÍA.

Öll ofangreind hafa unnið mikið og óeigingjarnt starf í þágu íþrótta.

Í umsögnum um Bjarna í innsendum tilnefningum kom m.a. fram:
Bjarni Malmquist Jónsson sýndi einstakan drifkraft og seiglu við að endurvekja Ungmennafélagið Vísi í Suðursveit og að virkja samtakamátt fólksins í sveitinni við framkvæmdir á fjölnota íþróttavelli við Hrollaugsstaði. Hann hefur verið leiðandi í að skapa tækifæri fyrir samfélagið til að láta hugmyndir rætast og hefur smitað út frá sér með jákvæðni og lausnamiðaðri hugsun. Verkefnið varð ekki aðeins byggingarframkvæmd heldur samfélagslegt afl þar sem nær hver einasti íbúi lagði sitt af mörkum. Íþróttavöllurinn við félagsheimilið Hrollaugsstaði hefur orðið tákn um sjálfstæði, seiglu og trú á framtíðina í einni af fjarlægari sveitum landsins.

Áhrif Bjarna munu vara um ókomna tíð og styrkja sveitarfélagið, ungmennafélagið og samheldni í Suðursveit um ókomin ár. Bjarni hefur einnig unnið mikið starf hjá Borðtennisdeild Ungmennafélagsins Vísis, komið á laggirnar vikulegum æfingum í borðtennis fyrir allan aldur og árlegum æfingabúðum fyrir hreyfihamlaða einstaklinga. Hann hefur verið drífandi kraftur fyrir fólkið í Suðursveit og er formaður USÚ. Með eldmóði og hugrekki hefur Bjarni kveikt neista sem hefur breiðst út um alla Suðursveit. Bjarni er verðugur Íþróttaeldhugi ársins 2025.“ 

ÍSÍ óskar Bjarna innilega til hamingju með útnefninguna. Árna Þór og Hugrúnu er einnig óskað til hamingju með frábærar tilnefningar, en öll þau þrjú sem tilnefnd voru fengu sérstakt viðurkenningarskjal, kerfismiða frá Lottó og gjafabréf frá Íslandshótelum. Öllum þremur er þakkað fyrir þeirra ómetanlega framlag til íþróttastarfsins.

Kallað var eftir tilnefningum úr hreyfingunni og frá landsmönnum og bárust alls 208 tilnefningar um 116 einstaklinga úr 25 íþróttagreinum. Úr röðum þeirra valdi sérstök valnefnd þrjá einstaklinga og einn þeirra hlaut heiðursviðurkenninguna Íþróttaeldhugi ársins 2025. 
Valnefndin var skipuð þeim Þóreyju Eddu Elísdóttur formanni, Degi Sigurðssyni, Einari Ólafssyni, Kristínu Rós Hákonardóttur og Margréti Láru Viðarsdóttur. 

Myndir með frétt