Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

12

World Company Sport Games 2026 í Danmörku

11.12.2025Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands vekur athygli á einstöku tækifæri fyrir fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök innan íþróttahreyfingarinnar til að taka þátt í World Company Sport Games 2026, sem fram fara í Frederikshavn í Danmörku dagana 10.–14. júní 2026. Leikarnir eru opnir öllum starfsmönnum fyrirtækja og stofnana og eru frábær vettvangur til að efla liðsheild, vellíðan starfsfólks og skapa jákvæða fyrirtækjamenningu. Þátttakan getur jafnvel opnað dyr að alþjóðlegum tengslum í gegnum íþróttir.

Skráning fer fram á heimasíðu leikanna og stendur frá 4. ágúst 2025 til 1. mars 2026. Í boði eru fjölmargar íþróttagreinar, meðal annars frjálsar íþróttir, golf, körfubolti, fótbolti (5/7/11 manna), handbolti, sund, tennis, fjallahjólreiðar, boccia/pétanque, padel, borðtennis, blak og margt fleira. Einnig eru greinar eins og brids, skák og rathlaup (orientering). Á leikunum býðst þátttaka í frjálsum íþróttum, sundi og pílu með sérstakri aðlögun fyrir fatlaða.

Þátttökugjald fyrir einstakling er 245 evrur og innifalið er skráning í eina grein, aðgangur að setningar- og lokahátíð, almenningssamgöngukort, tveir kvöldverðir í Arena Nord og aðgangur að viðburðum. Þátttökugjaldið fyrir einstakling í golfi er 295 evrur. Nánari upplýsingar um kostnað, íþróttagreinar og gistimöguleika má finna á heimasíðu leikanna. Á leikunum verður boðið upp á skipulagðar rútuferðir milli gistiaðstöðu og keppnisstaða auk þess sem allir þátttakendur fá frítt í almenningssamgöngur í héraðinu.

World Company Sport Games er frábært tækifæri fyrir fyrirtæki til að efla starfsandann, hvetja til hreyfingar og skapa jákvæða fyrirtækjamenningu, bæði fyrir reynda íþróttamenn og byrjendur.

Ef upp koma spurningar er best að hafa samband beint við móthaldara í gegnum netföngin: sport-wcsg26@arenanord.dk (íþróttagreinar), registration-wcsg26@arenanord.dk (skráning), wcsg@aalborgcvb.dk (gisting) og wcsg@arenanord.dk (annað).