Stefán Runólfsson Heiðursfélagi ÍSÍ látinn
01.12.2025
Stefán Runólfsson, Heiðursfélagi ÍSÍ, lést 27. nóvember sl., 92 ára að aldri.
Stefán hóf ungur að stunda íþróttir og keppti í frjálsíþróttum og knattspyrnu með Íþróttafélaginu Þór í Vestmannaeyjum. Stefán sat í stjórn Íþróttafélagsins Þórs í Vestmannaeyjum í mörg ár og var formaður Íþróttabandalags Vestmannaeyja um árabil. Hann var einnig formaður bygginganefndar Íþróttamiðstöðvarinnar í Eyjum. Fyrir störf sín í þágu íþróttanna hlaut Stefán ýmsar viðurkenningar, meðal annars Gullmerki ÍSÍ og Heiðurskross ÍSÍ sem er æðsta heiðursviðurkenning ÍSÍ. Hann var kjörinn Heiðursfélagi ÍSÍ á Íþróttaþingi ÍSÍ árið 2013. Árið 2003 var hann sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf sín að félags- og sjávarútvegsmálum.
Stefán var áhrifamaður í ýmsum félögum og samtökum tengdum sjávarútvegi en hann starfaði við þá atvinnugrein í yfir 50 ár. Hann var einnig virkur félagi í Oddfellowstúkunni Herjólfi í Vestmannaeyjum og einn af stofnendum Oddfellowstúkunnar Hásteins á Selfossi.
Stefán var einstaklega áhugasamur um starfsemi íþróttahreyfingarinnar og mætti vel á viðburði ÍSÍ sem Heiðursfélögum er boðið til. Alltaf brosmildur, glaður og áhugasamur um fólk og starfið í hreyfingunni. Hans verður sárt saknað úr starfinu.
Stjórn og starfsfólk ÍSÍ kveður góðan vin með þökk fyrir gefandi samleið og vináttu.
Börnum Stefáns, fjölskyldu og aðstandendum öllum sendum við dýpstu samúðarkveðjur. Minning hans mun lifa.