Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

24

Framtíðin í forgrunni á Formannafundi ÍSÍ

23.11.2025

 

Formannafundur ÍSÍ fór fram föstudaginn 21. nóvember, í golfskála Golfklúbbsins Leynis á Akranesi. Fundurinn var vel sóttur en um er að ræða árlegan upplýsingafund framkvæmdastjórnar ÍSÍ, og formanna og framkvæmdastjóra sérsambanda, héraðssambanda og íþróttabandalaga. Fjölmargir fundargestir nýttu ferðina á Skagann í að skoða glæsileg og ný íþróttamannvirki sem nú hafa verið tekin í notkun að Jaðarsbökkum á Akranesi áður en Formannafundurinn var settur í golfskálanum síðdegis.

Willum Þór Þórsson, forseti ÍSÍ, setti fundinn og flutti ávarp.

„Ég held það hafi aldrei verið meiri þörf á því að við náum öflugri samstöðu um það að tala máli íþróttahreyfingarinnar og ná saman með stjórnvöldum í auknum stuðningu til þess að nýta krafta hreyfingarinnar áfram til þess að takast á við þær fjölmörgu áskoranir sem að þjóðin og við stöndum frammi fyrir þegar kemur að lýðheilsu og auknum kröfum og auknum áskorunum, ekki síst gagnvart börnum okkar og unglingum,“ sagði Willum Þór meðal annars.

Að loknu ávarpi forseta tók Ragnheiður Ríkharðsdóttir, úr framkvæmdastjórn ÍSÍ, við sem fundarstjóri og fundarritari var Jón Reynir Reynisson, starfsmaður ÍSÍ á stjórnsýslusviði. Andri Stefánsson, framkvæmdastjóri ÍSÍ, flutti skýrslu framkvæmdastjórnar ÍSÍ og þá greindi Olga Bjarnadóttir, 2. varaforseti ÍSÍ og formaður stjórnar Afreksmiðstöðvar Íslands (AMÍ), frá þeirri vinnu sem stendur yfir hjá Afreksmiðstöðinni. Daníel Jakobsson, gjaldkeri ÍSÍ, tók svo við og fór yfir fjármál ÍSÍ. Helga Þórðardóttir, lögfræðingur á skrifstofu ÍSÍ, fór yfir stefnu um verndun og velferð í íþróttahreyfingunni, sem kynnt var á 77. Íþróttaþingi í maí síðastliðnum. Var samþykkt á þinginu að leggja fullunna stefnu fram til afgreiðslu á Formannafundi 2025. Stefnan hefur nú verið fullkláruð og staðfest af framkvæmdastjórn ÍSÍ og var hún borin upp til samþykktar á Formannfundinum og samþykkt samhljóða.

Síðast en ekki síst tóku allir fundargestir þátt í stefnumótunarvinnu, undir stjórn Ingibjargar Aspar Stefánsdóttur frá ráðgjafafyrirtækinu Expectus. Var vel unnið á öllum borðum og ýmislegt gagnlegt og áhugavert sem kom út úr þeirri vinnu, sem mun nýtast inn í stefnumótunarvinnuna sem framundan er fyrir íþróttahreyfinguna í heild sinni. Sú vinna verður umfangsmikil og mun fara fram á næstu tveimur árum með aðkomu bæði ÍSÍ og UMFÍ, sambandsaðilum þeirra og grasrótinni.