Góð dýnamík á fundi íþróttahéraða á Suðurlandi
Forsvarsfólk íþróttahéraða á Suðurlandi og aðildarfélaga þeirra hittist á Hótel Stracta á Hellu í síðustu viku.
Íþróttahéruðin, þ.e. Héraðssambandið Skarphéðinn, Íþróttabandalag Vestmannaeyja og Ungmennasamband Vestur-Skaftfellinga eru öll innan sömu svæðisstöðvar en þetta var í fyrsta skipti sem skipulagður er fundur af þessu tagi á svæðinu. Skipulagning var í höndum svæðisfulltrúa svæðisstöðvarinnar á Suðurlandi, þeirra Bryndísar Láru Hrafnkelsdóttur og Rakelar Magnúsdóttur.
Þátttakendur, sem voru um 50 talsins, voru mjög ánægðir með fundinn og þennan góða vettvang til samráðs og ráðagerða. Á fundinum gafst frábært tækifæri til að ræða tækifæri og áskoranir, styrkja tengsl og samvinnu, fræðast um þjónustu svæðisstöðva íþróttahéraða og fá ný sjónarhorn frá kollegum í íþróttahreyfingunni á svæðinu. Boðið var upp á fræðsluerindi frá Kristínu Skjaldardóttur, samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs, markþjálfinn Halldór Björnsson flutti einnig skemmtilegt og fróðlegt erindi og Magnús Ragnarsson formaður í Skotfélaginu Skyttur ræddi hagnýt ráð fyrir íþróttafélög.
Willum Þór Þórsson forseti ÍSÍ og Auður Inga Þorsteinsdóttir framkvæmdastjóri UMFÍ voru meðal gesta fundarins.
Myndir/Jón Aðalsteinn/UMFÍ.
.png?proc=250x250)
.png?proc=250x250)