Helgi Dan ráðinn svæðisfulltrúi á Vestfjörðum
.jpg?proc=400x400)
Helgi Dan Stefánsson hefur verið ráðinn starfsmaður svæðisstöðva íþróttahéraðanna á Vestfjörðum.
„Ég hef sérstakan áhuga á að efla aðgengi íþrótta fyrir jaðarsett börn. En góða greiningu virðist vanta fyrir marga hópa, það er vinna sem við þurfum að fara í,“ segir Helgi Dan Stefánsson, sem þekkir vel til á Vestfjörðum enda Ísfirðingur í húð og hár. Helgi er með meistaragráðu í félagsfræði og mun starfa samhliða Birnu Hannesdóttur sem einnig er svæðisfulltrúi á Vestfjörðum.
Svæðisstöðvar íþróttahéraðanna
Starfsfólk svæðisstöðva íþróttahéraðanna eru sextán talsins um allt land og í öllum landshlutum. Hver svæðisstöð styður við íþróttahéruð á sínu svæði og hjálpar þeim að innleiða stefnu íþróttahreyfingarinnar og ríkisins í íþróttamálum.
Ein af áherslum svæðisstöðvanna er að auka þátttöku barna og ungmenna í skipulögðu íþróttastarfi á Íslandi, sérstaklega börn með fatlanir, frá tekjulægri heimilum og þau sem hafa fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn.