Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

13.05.2025 - 13.05.2025

Ársþing ÍBV 2025

Ársþing Íþróttabandalags Vestmannaeyja (ÍBV)...
9

Sigrún Agatha nýr formaður Íþróttamannanefndar ÍSÍ

08.05.2025

 

Kosningafundur Íþróttamannanefndar ÍSÍ fór fram 30. apríl síðastliðinn í húsakynnum ÍSÍ. Fundurinn hófst á áhugaverðu erindi Vésteins Hafsteinssonar, ráðgjafa í Afreksmiðstöð Íslands, þar sem hann fjallaði um leiðina að gullverðlaunum á Ólympíuleikum. Hann deildi innsýn í undirbúning og skipulag þeirra íþróttamanna sem hann þjálfaði til verðlauna og persónulegri sýn á líf afreksíþróttamanns. Að loknu erindinu fór fram kosning í nefndina fyrir tímabilið 2025–2027. Þar sem sjö einstaklingar voru í framboði fyrir sjö nefndarsæti þá var sjálfkjörið í hana.

Íþróttamannanefnd ÍSÍ fyrir starfstímabilið 2025-2027 skipa:

Anton Sveinn McKee – sund
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir – frjálsíþróttir
Kristrún Ingunn S. Sveinsdóttir – kraftlyftingar
Lúðvík Már Matthíasson – blak
Sara Rós Jakobsdóttir – dans
Sif Atladóttir – knattspyrna
Sigrún Agatha Árnadóttir – íshokkí

Nýkjörin nefnd hélt stuttan fund þar sem Sigrún Agatha Árnadóttir var valin formaður. Anton Sveinn McKee er tilnefndur af nefndinni til að taka sæti í framkvæmdastjórn ÍSÍ fyrir hönd nefndarinnar, að gefinni staðfestingu Íþróttaþings ÍSÍ sem fram fer dagana 16. – 17. maí nk., sbr. reglugerð um Íþróttamannanefnd ÍSÍ og grein 17.1.c) í lögum ÍSÍ.

Fráfarandi stjórn og Kára Mímissyni formanni var þakkað fyrir vel unnin störf og mikilvægt framlag til málefna íþróttafólks á Íslandi.

Sigrún Agatha sagði meðal annars:

„Það að fá að taka þátt í verkefni á borð við Íþróttamannanefnd ÍSÍ eru forréttindi. Nefndin sameinar fjölbreyttan hóp afreksíþróttafólks og við vinnum saman að því að bæta stöðu íþróttamanna. Réttindi og velferð afreksíþróttafólks eru okkur ofarlega í huga og við höfum m.a. vakið athygli á öryggi í keppnisferðum, réttindum tengdum fæðingarorlofi og nýjum leiðum til tekjuöflunar.“

Anton bætti við:

„Ég hlakka til að gæta hagsmuna íþróttafólks innan framkvæmdastjórnar. Afreksmiðstöðin er mikilvæg nýjung og ég tel lykilatriði að koma þar með uppbyggilegar ábendingar frá sjónarhorni íþróttamannsins.“

Nefndin fundar bráðlega og hefst handa við að skipuleggja næsta starfsár.