Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

22.02.2025 - 22.02.2025

Ársþing SÍL 2025

Ársþing Siglingasambands Íslands (SÍL) verður...
22

Hörður Gunnarsson, Heiðursfélagi ÍSÍ, látinn

21.02.2025

 

Hörður Gunnarsson Heiðursfélagi ÍSÍ er látinn, á 86. aldursári.

Hörður var fæddur 24. ágúst 1939. Hann æfði glímu hátt í þrjátíu ár, gerðist kennari og þjálfari allra aldursflokka og gegndi ýmsum ábyrgðarstörfum í glímuhreyfingunni í gegnum árin. Hann var lengi formaður glímudeildar Ármanns og í aðalstjórn félagsins. Hörður var atkvæðamikill á vettvangi dómgæslu í glímu og var lengi formaður Glímudómarafélags Íslands.

Hörður kom að stofnun Glímusambands Íslands 1965 og sat í fyrstu stjórn þess.  Einnig var hann skoðunarmaður reikninga Glímusambandsins í hartnær 40 ár.

Hörður hlaut margvíslegar viðurkenningar í íþróttahreyfingunni, þ.m.t. Gullmerki ÍSÍ og Heiðurskross ÍSÍ. Hann var kjörinn Heiðursfélagi ÍSÍ á Íþróttaþingi sambandsins árið 2011. Hann var einnig Heiðursfélagi Glímufélagsins Ármanns og Glímusambands Íslands. Fyrir störf sín að þróun og kynningu íslensku glímunnar veitti Bandarísku fangbragðasamtökin (The Eastern USA International Martial Arts Association) Herði æðstu viðurkenningu sína í nóvember 2003.

Hörður var sem Heiðursfélagi ÍSÍ í virkum samskiptum við ÍSÍ, mætti vel á viðburði sambandsins og sýndi starfsemi ÍSÍ og íþróttahreyfingarinnar áhuga. Hann hafði ætíð eitthvað til málanna leggja og var fróður um margt. Íslensk glíma átti hug hans og hjarta og bar hann hag íþróttarinnar ætíð fyrir brjósti.

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands kveður nú góðan félaga og liðsmann með þakklæti fyrir vináttu og langa samleið og sendir Margréti eiginkonu hans og fjölskyldu dýpstu samúðarkveðjur. 

 

Myndir með frétt