Síðustu keppnisgreinum íslenska hópsins á EYOWF lokið

Síðustu keppnisgreinar Vetrarólympíuhátíðarinnar Evrópuæskunnar fóru fram í dag. Veðrið var stillt, hiti rétt yfir frostmarki og sól. Í alpagreinum var keppt í samhliða stórsvigi liða þar sem fulltrúar Íslands voru Erla Karítas Blöndahl Gunnlaugsdóttir, Sara Mjöll Fjalarsdóttir, Arnór Alex Arnórsdon og Andri Kári Unnarsson.
Vitað var fyrir fram að þetta yrði erfið keppni fyrir okkar hóp sem lenti á móti þriðja besta liðinu í fyrstu útsláttarkeppni. Niðurstaðan var 4-0 fyrir Sviss og liðið okkar féll úr keppni. Íslensku keppendurnir geta þó verið sátt með sinn árangur. Andri Kári var aðeins 0.05 sek á eftir sínum keppinaut og það var frábær upplifun fyrir hópinn að fá að taka þátt og bera sig saman við aðrar þjóðir.
Síðasta keppnisgrein í skíðagöngu var blönduð boðganga og kepptu þau Árný Helga Birkisdóttir, María Kristín Ólafsdóttir, Stefán Þór Birkisson og Róbert Bragi Vestmann Kárason. Blönduð boðganga fer þannig fram að hver og einn í liðinu klárar 5 km hver (4x5km), samtals 20 km ganga og það lið sem hefur bestan samanlagðan tíma vinnur boðgönguna.Íslenski hópurinn hafnaði í 19.sæti af 19 liðum á tímanum 1:08:24.1 klst.
Lokahátíðin fer fram í kvöld við gistiaðstöðu þátttakenda í Bakuriani. Athöfnin er um 45 mínútur en við tekur svo kveðjupartý fyrir keppendur. Fljótlega eftir lokahátíð er komið að brottför íslenska hópsins. Aðfaranótt mánudags mun íslenski hópurinn fljúga frá Tbilisi til Istanbúl og svo þaðan til Amsterdam og lenda heima á Íslandi síðdegis á mánudag. Fararstjórar ferðarinnar, þær Brynja og Margrét Regína, eru ánægðar með vel heppnaða hátíð og sértaklega góð og samhelginn hóp frá Íslandi. Veðrið lék við þátttakendur bæði í Batumi og Bakuriani og fara allir allir ánægðir heim, reynslunni ríkari.