Halla Björg dómari í listskautum á EYOWF
.jpg?proc=400x400)
Halla Björg Sigurþórsdóttir dómari í listskautum er meðal dómara á Vetrarólympíuhátíð Evrópuæskunnar (EYOWF) sem stendur yfir í Georgíu þessa dagana. Hún er með alþjóðleg réttindi í dómgæslu í listskautum og var ein af átta dómurum sem dæmdi keppni stúlkna á hátíðinni.
Það er mikilvægt fyrir Ísland að eiga dómara með alþjóðleg réttindi og heiður þegar íslenskir dómarar eru valdir til stórra ólympískra verkefna eins og EYOWF.
Halla Björg segir það ákveðna reynslu að upplifa mismunandi mót og hvernig hlutirnir eru gerðir í ólíkum löndum, læra á fólkið sem er í mismunandi stöðum og geta tekið þá reynslu til baka og hjálpað skautasamfélaginu heima, það sé mjög mikilvægt. Hún segir störf sín sem dómara erlendis auka tengslanetið og það sé bæði dýrmætt og geti nýst vel heima á Íslandi við ýmis verkefni.
Þegar Halla Björg var spurð að því hvaða þýðingu það hafi fyrir hana að taka þátt í EYOWF, svaraði hún:
„Fyrir mig persónulega er þetta ákveðinn draumur að fá að taka þátt á þennan hátt í skautaíþróttinni og segja mína skoðun þegar kemur að svona stóru móti eins og EYOWF er“.
Halla Björg sagði helsta muninn á EYOWF og öðrum alþjóðlegum mótum endurspeglast í menningu hverrar þjóðar og því hve mótin eru stór og umfangi þeirra. Eftir því sem fleiri þjóðir taki þátt verði meiri alþjóðlegur bragur á umfangi móta, líkt og á EYOWF. Á minni mótum t.d. Norðurlandamóti sé oft meiri slaki.