Svig stúlkna og keppni í risastökki á snjóbretti

Í dag var fyrsti dagurinn sem að sólin lét ekki sjá sig á Vetrarólympíuhátíð Evrópuæskunnar í Georgíu. Veðrið var stillt, hiti við frostmark og væg snjókoma. Tvær keppnisgreinar fóru fram í Bakuriani. Fyrri greinin var svig stúlkna þar sem Ísland átti fjóra fulltrúa, þær Erlu Karítas Blöndahl Gunnlaugsdóttur, Anítu Mist Fjalarsdóttur, Söru Mjöll Jóhannsdóttur og Kristínu Sædísi Sigurðardóttur. Aðstæður í fjallinu voru ágætar, gott skyggni en ný fallinn snjór gerði brautina svolítið erfiða. Alls voru 71 keppendur á ráslista en aðeins 39 fengu úrslit. Aníta Mist var eina úr íslenska hópnum sem að lauk keppni og hafnaði í 36. sæti á samanlögðum tíma 1:54.64 (+16.78).
Eftir hádegi voru aðstæður fínar en lítill hraði í brekkunni. Jökull Bergmann keppti í risastökki (e. Big air) á snjóbretti og hafnaði í 21.sæti af 28 keppendum. Hann hefur nú lokið keppni sinni á hátíðinni.
Á morgun, 15. febrúar fer fram sprettganga stúlkna og drengja í skíðagöngu þar sem keppt er til úrslita. Ræst verður í sprettgöngu stúlkna kl. 06:00 að íslenskum tíma og drengja kl. 10:00 að íslenskum tíma.