Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

21

Nýr svæðisfulltrúi íþróttahéraða

16.01.2025

„Ég er fullur tilhlökkunar að fá að koma að þessu starfi og í teymið, sem vinnur við að gera gott starf enn betra. Ég hef alltaf haft áhuga á íþróttum og tekst nú að sameina þetta, vinnu og íþróttir,“ segir Kristján Sturluson, sem hefur verið ráðinn í starf svæðisfulltrúa íþróttahéraða á Norðurlandi eystra. Kristján tekur við starfinu af Hansínu Þóru Gunnarsdóttur, sem um leið færir sig yfir á svæðisstöð höfuðborgarsvæðisins.

Hansína hefur frá síðasta ári verið annar tveggja svæðisfulltrúa íþróttahreyfingarinnar á Norðurlandi eystra ásamt Þóru Pétursdóttur.

„Ég hlakka til að takast á við öðruvísi, ný og fleiri verkefni. Við Þóra vinnum líka vel saman og munum gera það áfram þótt ég færi mig um set,“ segir hún.

Kristján er með B.A. gráðu í sálfræði og diplómu í jákvæðri sálfræði auk kennsluréttinda og vinnur nú sem sérfræðingur í gagnaöflun hjá Gallup.

Kristján æfði knattspyrnu í barnæsku en hefur á fullorðinsárum tekið til við hlaup. „Það er aðallega á seinni árum og þá í gegnum börnin sem ég hef orðið virkari í íþróttastarfi í gegnum íþróttaráð og foreldrafélög,“ bætir hann við og bendir á að hann hafi sem dæmi fylgt syni sínum í íshokki og ásamt fleiri feðgum komið á laggirnar æfingahópi fyrir byrjendur og óvana sem kalla sig Vana.

„Ég hef grínast með það við konuna mína að starf svæðisfulltrúa sé það sem ég hef komist næst því að verða atvinnumaður í íþróttum,“ segir hann að lokum.