Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

7

Íþróttaeldhugi ársins 2024 valinn í kvöld

04.01.2025

 

Í kvöld fer fram útnefning á Íþróttaeldhuga ársins 2024 en valið verður kynnt á Íþróttamanni ársins sem fram fer í Silfurbergi í Hörpu. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ), í samvinnu við Lottó, stendur fyrir kjöri á Íþróttaeldhuga ársins en hann er valinn úr röðum sjálfboðaliða í íþróttahreyfingunni, sem hafa í gegnum árin nýtt eigin hæfileika, frítíma og sérþekkingu til að efla íþróttastarfið í sínu nærumhverfi eða á landinu öllu. 

Kallað var eftir tilnefningum úr hreyfingunni og frá landsmönnum og bárust alls 353 tilnefningar um alls 176 einstaklinga úr 24 íþróttagreinum. Úr röðum þeirra hefur sérstök valnefnd valið þrjá einstaklinga og mun einn þeirra hljóta heiðursviðurkenninguna Íþróttaeldhugi ársins 2024.

Valnefndin var skipuð þeim Þóreyju Eddu Elísdóttur formanni, Kristínu Rós Hákonardóttur, Margréti Láru Viðarsdóttur, Snorra Einarssyni og Degi Sigurðssyni. 

Þeir einstaklingar sem valnefndin valdi úr röðum tilnefninga eru :

Björg Elín Guðmundsdóttir, Valur/HSÍ – Handbolti 

Björg Elín Guðmundsdóttir hefur verið í kringum handknattleik frá því hún var barn. Hún æfði og spilaði handbolta með Val og aðstoðaði einnig við þjálfun um tíma. Þegar leikmannaferlinum lauk, bauð hún fram krafta sína sem sjálfboðaliði.  Hún tók stóran þátt í starfi HSÍ, sat í stjórn, var í landsliðsnefndum og var liðstjóri. Hjá Val gegndi hún svipuðum störfum en hefur meira og minna verið liðstjóri meistaraflokks kvenna hjá Val frá árinu 1999, þó með nokkrum hléum. Hún er einstaklega fórnfús, umhyggjusöm og metnaðargjörn fyrir hönd sinna liða og leggur allt í verkefnin sem hún tekur sér fyrir hendur. Hennar sjálfboðaliðaferill spannar rúmlega 40 ár, Björg verður 75 ára á þessu ári og starfar enn sem liðstjóri hjá kvennaliði Vals í handbolta.  

Í umsögnum um Björgu í innsendum tilnefningum kom m.a. eftirfarandi fram: 

„Björg er alveg einstök. Betri liðsstjóra er ekki hægt að finna en hún hefur lagt líf sitt og sál í að hjálpa liðinu okkar til að ná árangri síðustu árin. Hún er alltaf mætt til að sjá til þess að allt sé í lagi hjá liðinu hvað varðar búninga, bolta, heilsu og líðan leikmanna og teymis.“ 

„Hún mætir ekki bara í leiki heldur mætir hún á flestar æfingar, passar börn og sér til þess að öll umgjörð sé eins og best verður á kosið. Einnig er Björg alltaf í góðu skapi og heldur uppi léttleikanum í kringum sig.“  

„Það þekkja allir í handboltaheiminum Björgu Guðmundsdóttur enda er hún engri lík og hefur í gegnum tíðina gert allt fyrir íþróttina sem hún elskar. Björg Guðmundsdóttir er sannur Íþróttaeldhugi sem handboltinn í Val er þakklátur fyrir.“ 


Haukur Guðberg Einarsson, UMFG – Fótbolti 

Haukur Guðberg Einarsson er formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur. Haukur hefur ásamt stjórn knattspyrnudeildar Grindavíkur haldið úti meistaraflokkum í karla- og kvennaflokki síðast liðið ár við mjög krefjandi og fordæmalausar aðstæður. Haukur hefur setið í stjórn Knattspyrnudeildar Grindavíkur síðastliðin 6 ár og sem formaður í rúmlega þrjú ár, en hann hefur verið sjálfboðaliði íþróttahreyfingarinnar í mun fleiri ár í þágu Grindvíkinga. Hann sat meðal annars í stjórn Golfklúbbs Grindavíkur í 2 ár og stjórnaði og hélt Knattspyrnuliði GG lifandi í nokkur ár. Haukur sat í stjórn íþrótta- og æskulýðsnefndar Grindavíkur þar sem hann beitti sér meðal annars fyrir því að foreldrar barna í Grindavík greiddu aðeins eitt gjald og börnin gátu æft eins margar íþróttir og þau langaði til.  

Í umsögnum um Hauk í innsendum tilnefningum kom eftirfarandi meðal annars fram: 

„Haukur hefur unnið þrekvirki ásamt sinni stjórn, sérstaklega síðastliðið ár að koma knattspyrnudeildinni fyrir á nýjum stað og halda utan um starfsemina til að Grindvíkingar geti komið saman.“ 

„Í gegnum ótrúlegar hremmingar tókst Hauki ásamt öðrum sjálfboðaliðum í starfi knattspyrnudeildar Grindavíkur að halda úti starfi elstu flokka undir merkjum Grindavíkur. Sú staðreynd gaf heimafólki von og samstöðu um að lífið gæti síðar orðið samt á nýjan leik. Í raun mætti útnefna alla sjálfboðaliða í kringum íþróttastarf Grindavíkur síðastliðið ár.“ 


Ingibergur Þór Jónasson, UMFG – Körfubolti 

Ingibergur Þór Jónasson er formaður körfuknattleiksdeildar Grindavíkur. Ingibergur hefur ásamt stjórn lagt á sig ómælda vinnu við að halda úti starfi deildarinnar við mjög krefjandi aðstæður. Ingibergur hefur setið í stjórn síðan 2016 og verið formaður síðan 2017, en hann hefur einnig gengt trúnaðarstörfum fyrir KKÍ og gert sig gildandi í starfi sambandsins.  

Í umsögnum um Ingiberg í innsendum tilnefningum kom eftirfarandi meðal annars fram: 

„Stjórn körfuknattleiksdeildarinnar með Ingiberg fremstan í flokki lét ekki deigan síga þrátt fyrir nánast óbærilegar aðstæður og fórnaði öllum sínum frítíma i að reka deildina og gleðja með því hið brotna samfélag sem Grindavik var og er.“ 

„Ingibergur ásamt stjórn körfunnar hélt úti stórkostlegu starfi deildarinnar eftir erfiða upplifun íbúa Grindavíkur eftir rýmingu. Maður skynjaði og sá að hann var í forystu fyrir verkefninu og þrátt fyrir að vera sjálfur í áfalli dreif hann starfið áfram líkt og eldhugi og var unun að fylgjast með honum að störfum og að auki með myndavélina á lofti til að fanga augnablikin í gleði og sorg. Það sem hann gerði skipti svo miklu fyrir okkur á þessum tímapunkti, að hittast, faðmast, gráta, hlæja og gleðjast saman. Verkin hans voru okkar áfallateymi.“