Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

7

Íþróttaeldhugi ársins 2024 er Björg Elín Guðmundsdóttir

04.01.2025

 

Björg Elín Guðmundsdóttir, sem starfað hefur fyrir handknattleiksdeild Vals og Handknattleikssamband Íslands (HSÍ), var í kvöld útnefnd Íþróttaeldhugi ársins 2024.

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, í samvinnu við Lottó, hefur undanfarin þrjú ár staðið fyrir þeirri nýbreytni, þegar Íþróttamaður ársins er útnefndur, að útnefna við sama tækifæri Íþróttaeldhuga ársins úr röðum sjálfboðaliða í íþróttahreyfingunni. Fyrstur hlaut viðurkenninguna Haraldur Ingólfsson, en hefur starfað fyrir Íþróttafélagið Þór og Þór/KA, og á síðasta ári hlaut Guðrún Kristín Einarsdóttir viðurkenninguna, en hún hefur starfað fyrir Aftureldingu og Blaksamband Íslands. Með þessari útnefningu vill ÍSÍ vekja athygli á starfi sjálfboðaliðans og koma á framfæri þakklæti fyrir framlag sjálfboðaliða um land allt en sjálfboðaliðar gegna geysimikilvægu hlutverki hjá öllum íþróttafélögum landsins og gera það að verkum að starfið í hreyfingunni er eins öflugt og raun ber vitni.  Verðlaunagripurinn, sem Íþróttaeldhugi ársins hlýtur, er hannaður sérstaklega af Sigurði Inga Bjarnasyni, gullsmiði, fyrir þetta tilefni. 

Þrír einstaklingar voru valdir úr fjölda tilnefninga sem bárust ÍSÍ og voru þau heiðruð í kvöld fyrir þeirra ómetanlegu störf en ásamt Björgu Elínu voru einnig heiðraðir:
Haukur Guðberg Einarsson, (knattspyrna), formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur og  
Ingibergur Þór Jónasson, (körfuknattleikur), formaður körfuknattleiksdeildar Grindavíkur. 

Öll hafa þau unnið mikið og óeigingjarnt starf í þágu íþrótta.

Í umsögnum um Björgu Elínu í innsendum tilnefningum kom m.a. fram:
Björg Elín Guðmundsdóttir hefur verið í kringum handknattleik frá því hún var barn. Hún æfði og spilaði handbolta með Val og aðstoðaði einnig við þjálfun um tíma. Þegar leikmannaferlinum lauk, bauð hún fram krafta sína sem sjálfboðaliði.  Hún tók stóran þátt í starfi HSÍ, sat í stjórn, var í landsliðsnefndum og var liðstjóri. Hjá Val gegndi hún svipuðum störfum en hefur meira og minna verið liðstjóri meistaraflokks kvenna hjá Val frá árinu 1999, þó með nokkrum hléum. Hún er einstaklega fórnfús, umhyggjusöm og metnaðargjörn fyrir hönd sinna liða og leggur allt í verkefnin sem hún tekur sér fyrir hendur. Hennar sjálfboðaliðaferill spannar rúmlega 40 ár, Björg verður 75 ára á þessu ári og starfar enn sem liðstjóri hjá kvennaliði Vals í handbolta.“   

„Björg er alveg einstök. Betri liðsstjóra er ekki hægt að finna en hún hefur lagt líf sitt og sál í að hjálpa liðinu okkar til að ná árangri síðustu árin. Hún er alltaf mætt til að sjá til þess að allt sé í lagi hjá liðinu hvað varðar búninga, bolta, heilsu og líðan leikmanna og teymis.“ 

„Hún mætir ekki bara í leiki heldur mætir hún á flestar æfingar, passar börn og sér til þess að öll umgjörð sé eins og best verður á kosið. Einnig er Björg alltaf í góðu skapi og heldur uppi léttleikanum í kringum sig.“  

„Það þekkja allir í handboltaheiminum Björgu Guðmundsdóttur enda er hún engri lík og hefur í gegnum tíðina gert allt fyrir íþróttina sem hún elskar. Björg Guðmundsdóttir er sannur Íþróttaeldhugi sem handboltinn í Val er þakklátur fyrir.“ 

ÍSÍ óskar Björgu Elínu innilega til hamingju með útnefninguna. Hauki Guðberg Einarsyni og Ingibergi Þór Einarssyni er einnig óskað til hamingju með frábærar tilnefningar, en öll þrjú fengu sérstakt viðurkenningarskjal, kerfismiða frá Lottó og gjafabréf frá Íslandshótelum. Öllum þremur er þakkað fyrir þeirra ómetanlega framlag til íþróttastarfsins.


Eins og undanfarin ár var kallað eftir tilnefningum frá landsmönnum og bárust alls 353 tilnefningar um alls 176 einstaklinga úr 24 íþróttagreinum. Sérstök valnefnd valdi þrjá einstaklinga úr þeirra röðum sem hlutu tilnefningu sem Íþróttaeldhugi ársins og svo einn af þeim sem hlaut heiðursviðurkenninguna Íþróttaeldhugi ársins 2024. Valnefndin var skipuð þeim Þóreyju Eddu Elísdóttur formanni, Kristínu Rós Hákonardóttur, Margréti Láru Viðarsdóttur, Snorra Einarssyni og Degi Sigurðssyni. 

Myndir með frétt