Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Inngilding býður upp á ný tækifæri

18.12.2024

 

Síðastaliðið haust hófu Special Olympics á Íslandi innleiðingu á verkefni sem kallast á ensku Unified Schools, sem þýða má á íslensku blandaðir skólar. Um er að ræða alþjóðlegt verkefni á vegum Special Olympics International og snýst um að blanda saman fötluðum börnum og ófötluðum í leik og starfi í skólastarfinu. Markmið er að kennarar, nemendur, skólastjórnendur og aðrir geti nýtt verkefnið sem verkfæri í þágu inngildingar í skólastarfi og að hver skóli gæti aðlagað verkefnið að því umhverfi sem til staðar væri hjá þeim. 

Með þessum hætti myndi verkefnið flæða inn í skólastarfið sem jákvæð viðbót við önnur skemmtileg verkefni og ýta undir það að nemendahópnum yrði blandað sem oftast. Meginþema inngildingar byggir á samstarfi og samvinnu, virðingu, jákvæðum samskiptum og upplifun allra nemenda.  

Þeir skólar hér á landi, sem fyrstir taka þátt í samstarfi við Special Olympics á Íslandi vegna þessa verkefnis eru:   
Fjölbrautaskólinn í Breiðholti,
Framhaldsskólinn á Húsavík, 
Heilsuleikskólinn Skógarás við Ásbrú og
Húsaskóli í Reykjavík.

Verkefnið verður tengt þátttöku Íslands á Heimsleikum Special Olympics 2025. Einnig er í gangi samstarf við Háskóla Íslands (HÍ) og Háskólann í Reykjavík (HR) en nemendur hafa tengst verkefninu Unified Schools í tengslum við námskeið um íþróttir og fjölbreytileikann.  

Special Olympics á Íslandi hefur yfirumsjón með verkefninu og innleiðingunni á Íslandi en hún hefur verið í samræmi við óskir hvers skóla og passað er uppá að hún sé ekki íþyngjandi. Horft er til þess að verkefnið geti flætt inn í hefðbundið starf og opnað á tækifæri til nýrra viðburða og verkefna. Íþróttir og leikir eru form sem hefur reynst mjög áhrifaríkt til inngildingar í skólastarfi og margir setja upp fjölbreytta viðburði tengda þeim.

Hér má fá nánari upplýsingar um Unified Schools verkefnið.
Hér má finna nánari upplýsingar um Special Olympics á Íslandi.

Myndir/Hvatisport.is

Myndir með frétt