Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

60 dagar í EYOF í Bakuriana í Georgíu

11.12.2024

 

Í byrjun febrúar á næsta ári, eftir 60 daga, hefst Vetrarólympíuhátíð Evrópuæskunnar, European Youth Olympic Festival (EYOF). Hátíðin mun fara fram í Bakuriani í Georgíu, dagana 9. - 16. febrúar. Keppnin er haldin fyrir ungt og efnilegt íþróttafólk (15-18 ára) frá 48 Evrópulöndum og keppa íslensku keppendurnir meðal annars í alpagreinum, skíðagöngu, snjóbrettum og listskautum.

Aðalfararstjóri á leikunum verður Brynja Guðjónsdóttir, sérfræðingur á Afrekssviði ÍSÍ. Brynja er margreynd sem fararstjóri og hefur staðið vaktina á fjölmörgum leikum og íþróttahátíðum á vegum ÍSÍ, nú síðast á Ólympíuleikunum í París. Flokksstjóri Skíðasambandsins verður Helga Björk Árnadóttir og flokkstjóri Listskautasambandsins verður Þóra Sigríður Torfadóttir.

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu leikanna.

Undirbúningur fyrir leikana stendur sem hæst en að mörgu að hyggja áður en farið er í keppnisferð af þessu tagi. Brynja, aðalfararstjóri, fór til að mynda í byrjun október í undirbúningsferð til Bakuriani, til að kanna aðstæður og fá allar upplýsingar svo undirbúningur fyrir leikana yrði sem bestur. Einnig þarf að meta hvað þurfi að taka með út svo upplifun keppenda verði sem ánægjulegust á meðan á leikunum stendur. 

Um 25 þátttakendur munu fara á leikana fyrir Íslands hönd og í lok janúar verður staðfest hverjir taka þátt. Nánari upplýsingar um lokahópinn kemur síðar.

Nokkrar skemmtilegar staðreyndir um Vetrarólympíuhátíðina:
Hátíðin varir í 8 daga
Keppendur verða yfir 950
Keppt verður í 8 vetraríþróttagreinum 
Þátttökulönd verða 48
Keppnisleikvangar eru 5
Sjálfboðaliðar verða yfir 750 
EYOF hátíðin hefur verið haldin í 33 ár, frá árinu 1991.

Myndir með frétt