Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

27

Syntir voru um 24 hringir kringum Ísland í Syndum

10.12.2024

 

Landsátakinu Syndum lauk 30. nóvember síðastliðinn en átakið hófst með setningu í Ásvallalaug þann 1. nóvember. Um er að ræða sameiginlegt átak Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) og Sundsambands Íslands (ÍSS), sem vilja með þessu hvetja landsmenn til meiri hreyfingar í gegnum sundið. Sund höfðar til allra landsmanna, óháð aldri, bakgrunni eða líkamlegu ástandi og er þar að auki heilsubætandi, styrkir hjarta- og æðakerfið, lungu og vöðva líkamans.

Átakið er viðburður undir Íþróttaviku Evrópu, sem tókst vel í ár. Markmið Íþróttaviku Evrópu er að kynna íþróttir og almenna hreyfingu um alla Evrópu og sporna þannig við auknu hreyfingarleysi meðal almennings.

Til þess að taka þátt í átakinu skráðu þátttakendur sig til leiks á heimasíðu Syndum og skráðu metrana sem þeir syntu. Samtals lögðu landsmenn um 31.271 km að baki, sem samsvarar tæplega 24 hringjum (23,7) í kringum Ísland. Til samanburðar voru syntir 26.850 km á síðasta ári eða rúmlega 20 hringir í kringum Ísland. 

Það voru sautján grunnskólar og fimm sundfélög og/eða sunddeildir sem tóku þátt í átakinu í ár. Í tilefni af Alþjóðlegum degi barnsins þann 20. nóvember fengum við UNICEF í lið með okkur. Nemendur og iðkendur sundfélaga sem voru í sundi í nóvember voru hvattir til að synda fyrir hreinu vatni, handa börnum sem búa við erfið skilyrði þar sem skortur er á hreinu vatni. Að því loknu voru þrír vinningshafar dregnir úr þeim skólum og sundfélögum sem skráðu sig til leiks. Vinningshafarnir eru: 
Stekkjaskóli á Selfossi
Skarðshlíðarskóli í Hafnarfirði og
Sunddeild Hvatar á Blönduósi. 
Þau fá hvert viðurkenningu frá UNICEF fyrir að hafa gefið 100.000 vatnshreinsitöflur, sem geta hreinsað 500.000 lítra af hreinu vatni, sem samsvarar vatnsmagni í 25 metra sundlaug.

Sundfélag Hafnarfjarðar (SH) tók átakið með trompi. Tæplega 179 þátttakendur skráðu metrana sína og syntu yfir tíu þúsund km eða um 8 hringi í kringum Ísland. Innifalið í þeirri tölu eru allar æfingar í djúpu lauginni og það sem skráð var á sundmótum. Sú laug sem var með flesta skráða metra var Ásvallalaug í Hafnarfirði með 11.580,74 km. Næsta sundlaug á eftir var Vatnaveröld í Reykjanesbæ með skráða 8.954,26 km. Sundfélag Hafnarfjarðar á sannarlega sinn þátt í að koma Ásvallalaug á toppinn. Virkilega vel gert og til hamingju Ásvallalaug með árangurinn!

Almenn ánægja var meðal þátttakenda með átakið og margir nýttu sér það sem hvatningu til að synda oftar eða lengra. Reglulega voru dregnir út þátttakendur í skráningarleik og hlutu þeir heppnu gjafir frá styrktar- og samstarfsaðilum átaksins; 
H-verslun, 
Craft og 
NIVEA
auk ÍTR og Akureyrarbæjar sem gáfu kort í sund.

ÍSÍ þakkar öllum þeim sem tóku þátt og hjálpuðu til við átakið. Frekari upplýsingar um átakið má finna á Syndum.is.

Myndir með frétt