Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Haldið upp á Dag sjálfboðaliðans með málþingi og vöfflum

06.12.2024

 

Haldið var upp á Dag sjálfboðaliðans í gær með málþingi í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal og þónokkur fjöldi mætti til að hlýða á og heiðra alla sjálfboðaliða í tilefni dagsins. 

Þrír sjálfboðaliðar héldu erindi á málþinginu um þeirra aðkomu að íþróttaheyfingunni og hvaða þýðingu sjálfboðastarf hefur haft fyrir þau.

Íþróttaeldhugi ársins 2023, Guðrún Kristín Einarsdóttir, bauð sig fyrst fram sem sjálfboðaliði í íþróttum þegar sonur hennar byrjaði að stunda íþróttir með Aftureldingu og hefur unnið hin ýmsu störf fyrir félagið. Síðastliðin rúm 20 ár hefur hún verið formaður í Blakdeild Aftureldingar og einnig sinnt sjálfboðastörfum fyrir Blaksambandið.

Jónas Hlíðar Vilhelmsson, formaður Fálka, feðraklúbbs í Val, kom inn í starf Val til að leggja hönd á plóginn í kringum íþróttir barna hans en tók svo þátt í starfi Fálka, sem sjá um margar stórar fjáraflanir fyrir flokka og afrekskrakka í Val til að létta undir með þeim í dýrum ferðalögum vegna íþróttanna. Allar fjáraflanir Fálka eru eingöngu hugsaðar til að létta undir íþróttaþátttöku barna og ungmenna.

Að lokum hélt Petra Ruth Rúnarsdóttir, formaður Þróttar Vogum, erindi um það hvað þátttaka í sjálfboðastarfi hefur gefið henni en hún leiddist út í formennsku hjá Þrótti Vogum, eftir að hafa gegnt ýmsum störfum og verkefnum. Hún sér ekki eftir neinu því lærdómurinn er mikill og kunnátta sem hún nýtir áfram þó hún hætti sem formaður á næsta ári.

Eftir málþing var boðið upp á ilmandi vöfflukaffi í boði Vilko og Mjólkursamsölunnar!

Takk, sjálfboðaliðar fyrir ykkar mikilvæga starf!

Myndir með frétt