Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
22

Móttaka hjá ráðherra til heiðurs þátttakendum Ólympíuleikanna og Paralympics

20.11.2024

 

Í gær, þriðjudaginn 19. nóvember, bauð mennta- og barnamálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, keppendum og öðrum þátttakendum, til móttöku í tilefni af þátttöku Íslands á Ólympíuleikunum og Paralympics í París síðastliðið sumar. Voru þar m.a. mætt þau Anton Sveinn McKee, Guðlaug Edda Hannesdóttir og Hákon Þór Svavarsson, keppendur á Ólympíuleikunum, og Ingeborg Eide Garðarsdóttir, Róbert Ísak Jónsson og Sonja Sigurðardóttir keppendur á Paralympics í París auk þjálfara, þátttakenda úr heilbrigðisteymi, fararstjórnar, dómara, stjórna og starfsmanna ÍSÍ og ÍF auk annarra.

Þrátt fyrir að nokkrir keppendur og þátttakendur væru fjarverandi eða staddir erlendis var vel mætt og létt yfir fólki. Ráðherra hrósaði afreksíþróttafólkinu, sem stóð sig frábærlega á þessu stærsta íþróttasviði heims, og öðrum þátttakendum sem stóðu í ströngu, bæði við undirbúning fyrir leikana og á leikunum sjálfum. Óhætt er að segja að undirbúningur hafi verið langur og strangur fyrir þetta stóra mót og mörg handtök sem þurfti að framkvæma. 

Ráðherra sagðist þannig vera stoltur yfir árangri íslenskra keppenda og hreykinn yfir þeim aðgerðum til íþróttanna sem hann hefur unnið að í sínu starfi á síðastliðnum árum. Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ, tók til máls og þakkaði bæði fyrir höfðinglegar móttökur og stuðninginn frá Ásmundi til íþróttamála frá því að hann kom inn sem ráðherra í ríkisstjórn. Þórður Árni Hjaltested, formaður ÍF, tók undir þessi orð og þakkaði jafnframt fyrir frábærar móttökur. 

ÍSÍ og ÍF afhentu þátttakendum viðurkenningarskjöl og að lokum var boðið upp á dýrindis veitingar af bestu tegund og spjallað um íþróttir og íþróttatengd málefni!

Myndir/Arnaldur Halldórsson

Myndir með frétt