Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Tillögum að eflingu almenningsíþróttastarfs skilað inn

21.10.2024

 

Starfshópur, sem skipaður var að frumkvæði mennta- og barnamálaráðherra í mars 2023, skilaði í dag inn skýrslu með tillögum að eflingu almenningsíþróttastarfs á Íslandi. 

Íþróttaiðkun gegnir mikilvægu hlutverki í viðhaldi andlegrar og líkamlegrar heilsu, ekki síst þegar við eldumst. Hún leiðir til heilsusamlegs lífernis og fyrirbyggir sjúkdóma. Þannig eykur hún farsæld og framleiðni í samfélaginu.

Starfshópurinn var skipaður til að leggja mat á markmið og árangur gildandi stefna og áætlana á sviði íþrótta og til hvaða ráðstafana íþróttafélög geta gripið til að halda fólki í íþróttum og virkja eldri aldurshópa. Honum var falið að skilgreina hvaða þætti þurfi að efla í almenningsíþróttastarfi og hvernig það verði best gert. Þá var hann fenginn til að skoða íþróttalög og mögulegar breytingar á þeim með áherslu á almenningsíþróttir og heilsueflingu í anda lýðheilsumarkmiða stjórnvalda.

Tillögur starfshópsins eru eftirfarandi:

Draga fram mikilvægi skólaíþrótta og hreyfingar á hverjum degi í skólastarfi.
„Vertu með leiðinni“, hreyfingarátak fyrir 13 ára og eldri innan íþróttahreyfingarinnar með það að markmiði að ná til fleiri iðkenda og halda þeim lengur virkum í íþróttastarfi.
Efling íþróttaframboðs fyrir eldri borgara í samstarfi við sveitarfélög.
Lagt er til að ábyrgð á málaflokki almenningsíþrótta/lýðheilsu verði betur skilgreind og meiri áhersla verði lögð á raunverulegar aðgerðir og eftirfylgni með þeim. Hópurinn telur að greina þurfi betur stöðuna varðandi almenningsíþróttir hér á landi svo hægt sé að ráðast í markvissari aðgerðir sem skila árangri.
Vel menntaðir kennarar/þjálfarar eru lykilaðilar í eflingu faglegs íþrótta- og lýðheilsustarfs. Þessa lykilaðila þarf að meta að verðleikum og þeim þurfa að bjóðast laun samkeppnishæf við aðra kennslu, möguleika á endurmenntun og góðar aðstæður til kennslu.
Koma þarf á faglegum stuðningi við þjálfara og leiðtoga á vettvangi. Þar geta svæðisstöðvar íþróttahéraða haft hlutverki að gegna.
Tryggja jafnræði til þátttöku í öllum íþróttum og hreyfingu, óháð efnahag eða öðrum bakgrunni.

Nánar má lesa um tillögurnar í skýrslu starfshóps um eflingu almenningsíþróttastarfs.

Í starfshópnum eru:
Gauti Grétarsson, formaður, án tilnefningar
Örvar Ólafsson, án tilnefningar
Halla Karen Kristjánsdóttir, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga
Guðmunda Ólafsdóttir, tilnefnd af Ungmennafélagi Íslands
Hildur Karen Aðalsteinsdóttir, tilnefnd af Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands
Þráinn Hafsteinsson, tilnefndur af Menntavísindasviði Háskóla Íslands
Sveinn Þorgeirsson, tilnefndur af Háskólanum í Reykjavík

Á myndinni má sjá Ásmund Einar Daðason, ráðherra, ásamt starfshópnum.

Mynd/Mennta- og barnamálaráðuneytið.