Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
22

Forvarnardagurinn 2024 settur í Ingunnarskóla

02.10.2024

 

Forvarnardagurinn 2024 er í dag en hann var settur í 19. sinn með málþingi í Ingunnarskóla í Grafarholti. Forvarnardagurinn er haldinn í byrjun október ár hvert og er sjónum beint sérstaklega að ungmennum í 9. bekk grunnskóla og á fyrsta ári í framhaldsskóla. Yfirskrift Forvarnardagsins í ár er Hugum að verndandi þáttum og vellíðan í lífi barna og ungmenna með kærleik!
 
Skólastjóri Ingunnarskóla, Guðlaug Erla Gunnarsdóttir, bauð gesti velkomna ásamt því að kynna starf skólans áður en hún gaf fundarstjórn yfir á Dóru Guðrúnu Guðmundsdóttir, sviðsstjóra lýðheilsusviðs Embættis landlæknis.
 
Forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, tók fyrst til máls. Hún þakkaði fyrir hið góða starf sem Forvarnardagurinn hafði áorkað á undanförnum 18 árum en vildi benda á að það mætti gera ýmislegt fleira til að auka vellíðan barna og ungmenna, t.d. með minnkandi símanotkun, með áherslu á meiri samskipti augliti til auglitis og með því að hafa  kærleikann að vopni í okkar daglega lífi.
 
Landlæknir, Alma D. Möller, tók undir þetta og minnti á mikilvægi svefnsins. Einnig að verndandi þættir væru samvera með fjölskyldu og vinum, þátttaka í skipulögðu íþróttastarfi og líf án ávanabindandi efna, eins og áfengis og fíkniefna ,og að hvert ár án þessara efna skiptir máli.
 
Formaður borgarráðs, Dagur B. Eggertsson, hefur lengi tekið þátt í Forvarnardeginum sem borgarstjóri Reykjavíkur. Hann minnti á að breytingar geta verið af hinu góða og hvatti til þess að skoða nýja þætti til að létta undir með börnum og ungmennum til að gera lífið betra.
 
Margrét Lilja Guðmundsdóttir, þekkingarstjóri hjá Planet Youth fór svo yfir þau gögn sem safnað hefur verið saman með könnunum í skólum árum saman og dró saman helstu niðurstöður. Hennar erindi kallaðist Ekkert um ykkur án ykkar og sýndu gögnin að ungmennin eru að flestu leyti að standa sig mjög vel og mikill meiri hluti ungmenna á góðum stað og standa sig vel þó að áskoranirnar séu víða. Hún vitnaði einnig í svör ungmennanna um hvað fjölskyldur geti gert til að fjölga samverustundum og nefndu unglingarnir þætti eins og sameiginlegan kvöldmat, horfa á mynd saman eða fara í sumarbústað sem dæmi um ánægjulegar samverustundir. 
 
Ernir Daði Arnbergz Sigurðsson og Karen Hulda Finnsdóttir, fulltrúar úr ungmennaráði UMFÍ, sögðu frá eigin upplifun hvað það er sem hefur mesta forvarnargildið og hvaða þættir hafa verið verndandi í þeirra lífi, s.s. þátttaka í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi, stuðningur foreldra, að fá að bera ábyrgð og fleira.
 
Um Forvarnardaginn:
Verkefni Forvarnardagsins hafa frá upphafi verið byggð á rannsóknum. Skólar fá aðgang að verkefnum í glæruformi þar sem kennarar fara yfir verndandi þætti og hvað hægt er að gera til að auka vellíðan. Rannsóknir hafa sýnt að samvera með fjölskyldunni, þátttaka í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi og það að leyfa heilanum að þroskast án neikvæðra áhrifa eru verndandi þættir fyrir áhættuhegðun. Nemendur nýta þetta efni svo til umræðu í hópavinnu og skrá hugmyndir sínar um hvað veitir þeim vellíðan og hefur áhrif á góða heilsuhegðun, um samskipti og samveru með foreldrum og fjölskyldu, áhrif félagsþrýstings o.fl. Einnig ræða nemendur í framhaldsskólum um þá ákvörðun að drekka ekki eða seinka því að byrja að drekka áfengi og hvaða þættir hafa áhrif á þá ákvörðun.
 
Nemendum í þátttökuskólum (9. bekk og á fyrsta ári í framhaldsskóla) býðst að taka þátt í verðlaunaleik en nánari upplýsingar um leikinn verða aðgengilegar á vefsíðu Forvarnardagsins www.forvarnardagur.is 2. október. Forseti Íslands afhendir verðlaun við hátíðlega athöfn á Bessastöðum síðar á árinu.
 
Embætti landlæknis fer með verkefnastjórn Forvarnardagsins og samstarfsaðilar eru embætti forseta Íslands, Reykjavíkurborg, Rannsóknir og greining, Planet Youth, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands, Samfés, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samstarf félagasamtaka í forvörnum, Bandalag íslenskra skáta, Ríkislögreglustjóri og Heimili og skóli.
 
Nánari upplýsingar veitir:
Margrét Lilja Guðmundsdóttir, þekkingarstjóri hjá Planet Youth margret@planetyouth.org (851 1110).
Ingibjörg Guðmundsdóttir, verkefnastjóri Forvarnardagsins og Heilsueflandi grunn- og framhaldsskóla
hjá Embætti landlæknis ingibjorg.gudmundsdottir@landlaeknir.is
Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðstjóri lýðheilsusviðs Embættis landlæknis dora.g.gudmundsdottir@landlaeknir.is
 
Hægt er að nálgast upptöku af málþinginu hér.

Myndir/Jón Aðalsteinn. Fleiri myndir hér.

 

Myndir með frétt