Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
22

Ólympíuhlaupið í ár var fyrir Bryndísi Klöru

25.09.2024

 

Ólympíuhlaup ÍSÍ, sem áður kallaðist Norræna skólahlaupið, hefur verið fastur liður í skólastarfi margra grunnskóla frá því það fór fyrst fram, árið 1984.  

Hjá Salaskóla í Kópavogi fór hlaupið fram þann 13. september og ákváðu skólastjórnendur að nýta Ólympíuhlaupið líka sem góðgerðarhlaup, eins og gert hafði verið á síðasta ári með góðum árangri. Það voru um 530 nemendur, auk starfsfólks, sem hljóp saman í blíðskaparveðri þennan dag til minningar um Bryndísi Klöru Birgisdóttur, en hún var fyrrum nemandi í Salaskóla og því sérstaklega þýðingarmikil og sterk tenging að safna í Minningarsjóð hennar. Nemendur mættu í hlaupið í bleiku, hennar eftirlætislit, og söfnuðu áheitum eða frjálsum framlögum með því að hlaupa. Vegalengdin sem hver og einn hljóp var frjáls en að lágmarki var farinn einn hringur, sem var um 2,5 km langur. Íþróttakennarar höfðu merkt hringinn og skreytt hann með fallegum hvatningarorðum á víð og dreif á leiðinni. Úr var fallegur dagur í anda samkenndar, samvinnu, vináttu og gleðinnar yfir því að geta látið gott af sér leiða, þar sem hreyfing og útivera var í forgrunni.  
 
Þetta var afar merkingarbær dagur fyrir nemendur og öll sem tengjast Salaskóla. Um 1.450.000 kr söfnuðust með hlaupinu í Minningarsjóðinn en honum er ætlað er að styðja við verkefni sem miða að því að vernda börn gegn ofbeldi og efla samfélag þar sem samkennd og samvinna eru í forgrunni. Sjóðurinn mun einbeita sér að fræðslu, rannsóknum og vitundarvakningu til að koma í veg fyrir að þær hörmungar, sem leiddu til fráfalls Bryndísar Klöru, endurtaki sig. Minningarsjóður Bryndísar Klöru er í umsjón KPMG og er forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, verndari sjóðsins. 
 
Skólastjórnendur Salaskóla voru ánægðir með þátttökuna og hlaupið og það sem það stóð fyrir og töluðu um að á svona stundum sæju þeir samkenndina og fegurðina sem býr í skólasamfélaginu. Við þetta tilefni þótti þeim ástæða til að vitna í orð Ghandis:

„Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum”

ÍSÍ hvetur alla grunnskóla til að taka þátt í Ólympíuhlaupi ÍSÍ. Hlaupið er styrkt af verkefninu Íþróttavika Evrópu og verða þrír þátttökuskólar, sem ljúka hlaupinu fyrir 10. október og skila inn upplýsingum til ÍSÍ, dregnir úr potti. Hver þessara þriggja skóla fær 150.000 króna inneign í Altis, en  Altis selur vörur til íþróttaiðkunar sem nýtast nemendum á skólalóðinni eða í íþróttahúsinu. Þeir skólar sem ljúka hlaupinu eftir 10. október geta eftir sem áður skilað inn upplýsingum og fengið send viðurkenningaskjöl, en gert er ráð fyrir að allir skólar hafi lokið hlaupinu fyrir árslok 2024.

Myndir með frétt