Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

15

Fimm íslenskir keppendur á Paralympics

14.08.2024

 

Nú þegar Ólympíuleikunum er lokið þá styttist í Paralympics sem hefjast 28. ágúst í París og standa til 8. september nk. Íslensku keppendurnir og föruneyti munu fljótlega halda til Parísar og koma sér fyrir í Ólympíuþorpinu.

Keppendur Íslands á Paralympics 2024 eru fimm talsins, þau Ingeborg Eide Garðarsdóttir í kúluvarpi, Sonja Sigurðardóttir í 50m baksundi og 100m skriðsundi, Thelma Björg Björnsdóttir í 100m bringusundi, Róbert Ísak Jónsson í 100m flugsundi og Már Gunnarsson í 100m baksundi. 

Ísland hefur sent keppendur á Paralympics síðan 1980 og verða leikarnir í París þeir tólftu sem Ísland tekur þátt í. Samtals hefur Ísland sent 40 þátttakendur og þar af hafa 13 farið á fleiri en eina leika. Ísland hefur átt keppendur í bæði sundi og frálsíþróttum á öllum leikum síðan 1980 en einnig hafa verið keppendur í kraftlyftingum, borðtennis, bogfimi og hjólreiðum á einstaka leikum. 

Ísland hefur unnið til verðlauna á átta Paralympics leikum. Þau síðustu komu á Paralympics í London 2012 þegar Jón Margeir Sverrisson vann til gullverðlauna í 200m skriðsundi í flokki S14. Þess má geta að Kristín Rós Hákonardóttir vann til verðlauna á þrennum Paralympics, árin 1996, 2000 og 2004.

Gott samstarf er á milli ÍSÍ og ÍF, meðal annars um nýtingu á ýmsum búnaði sem íslenski hópurinn á nýafstöðnum Ólympíuleikum notaði í Ólympíuþorpinu. Búnaðinum var pakkað saman og hann settur í geymslu við lok Ólympíuleikanna þar til hópurinn frá ÍF mætir á Paralympics.

ÍSÍ óskar íslenska hópnum alls góðs í París og hvetur alla Íslendinga til að fylgjast vel með íslensku keppendunum etja kappi við á bestu í heiminum. 

Finna má skemmtilega fróðleiksmola um Paralympics og þátttöku Íslands hér.