Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

15

Ráðherra á Ólympíuleikunum í París

09.08.2024

 

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, var staddur í París dagana 2. til 6. ágúst sl. ásamt eiginkonu sinni Sunnu Birnu Helgadóttur, og sóttu þau nokkra viðburði á Ólympíuleikunum.
Með þeim í för voru Teitur Erlingsson aðstoðarmaður ráðherra og Anna Tryggvadóttir lögfræðingur og staðgengill ráðuneytisstjóra.
Hópurinn fylgdist með Hákoni Þór Svavarssyni skotíþróttamanni í keppni í haglabyssu sem fór fram í Chateauroux  og var þar í fylgd Andra Stefánssonar framkvæmdastjóra ÍSÍ, Líneyju Rutar Halldórsdóttur ráðgjafa og stjórnarmanni Evrópsku Ólympíunefndanna, Vésteins Hafsteinssonar afreksstjóra ÍSÍ og Halldórs Axelssonar formanns Skotíþróttasambands Íslands. Þar hittu þau einnig fjölskyldu Hákons Þórs á viðburðinum sem studdu vel við sinn mann í keppninni.
Þau heimsóttu jafnframt Ólympíuþorpið í París og kynntu sér aðstæður og aðbúnað íslenska hópsins. Þar hittu þar keppendurna Anton Svein, Ernu Sóleyju og Hákon Þór og var meðfylgjandi mynd tekin við það tækifæri. Ráðherra og föruneyti snæddu svo léttan málsverð í mathöll Ólympíuþorpsins, meðal besta íþróttafólks heims.
Á meðal viðburða sem ráðherra sótti var leikur þýska karlalandsliðsins í handknattleik, en Alfreð Gíslason þjálfar það lið og á þeim viðburði hitti ráðherra Jóhann Inga Gunnarsson, sálfræðing og fyrrverandi handknattleiksþjálfara, en hann starfar á leikunum á vegum Alþjóðahandknattleikssambandsins í verkefni sem tengist þeim dómurum sem dæma á leikunum. 
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra:
„Það var ótrúlegur heiður að fá að fylgja íþróttafólkinu okkar eftir nokkra daga í París. Fagmennskan, dugnaðurinn og eljan sem býr í þessum frábæru einstaklingum og öllu teyminu sem fylgir þeim er aðdáunarverð.“ 
ÍSÍ þakkar ráðherra fyrir þann áhuga sem hann sýndi íslenska hópnum og heimsóknina til Parísar. Það er mikilvægt að fulltrúar stjórnvalda upplifi Ólympíuleika og það sem þeim fylgir enda er þátttaka á Ólympíuleikum eitt helsta markmið íþróttafólks og því mikilvægt að þjóðin efli enn frekar möguleika okkar íþróttafólks til að ná árangri á alþjóðavettvangi.

 

Myndir með frétt