Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

01.11.2024 - 30.11.2024

Syndum

Verkefnið Syndum hefst 1. nóvember og stendur...
30

Forsætisráðherra sótti Ólympíuleikana í París

29.07.2024

 

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og kona hans Þóra Margrét Baldvinsdóttir voru viðstödd setningarhátíð Ólympíuleikanna 26. ágúst sl. Hann sótti einnig við þetta tækifæri ýmsa viðburði sem skipuleggjendur Ólympíuleiknna voru með á dagskrá fyrir forseta og forsætisráðherra þátttökuþjóða.


Bjarni var viðstaddur keppni hjá Antoni Sveini McKee 27. ágúst og Snæfríði Sól Jórunnardóttur 28. ágúst í fylgd forseta og framkvæmdastjóra ÍSÍ og Unnar Orradóttur Ramette sendiherra Íslands í Frakklandi auk þess sem hann sá ýmsa aðra viðburði leikanna og þau mannvirki sem hýsa þessa stórkostlegu leika.

Bjarni og Þóra heimsóttu Ólympíuþorpið og hittu þar Véstein Hafsteinsson Afreksstjóra ÍSÍ, sem einnig er aðalfararstjóri íslenska hópsins á leikunum. Þar skoðuðu þau aðstöðu íslenska hópsins og vistarverur, sem eru vel skreyttar og það er skemmtilegt að sjá þjóðfána og fánaliti Íslands og Danmerkur í sömu byggingunni. Við hlið þeirra eru svo aðrar Norðurlandaþjóðir sem er mjög hentugt þar sem gott samstarf er á milli þjóðanna um ýmis verkefni. Húsin eru öll merkt og skreytt að utan og fer ekki á milli mála hverjir þar dvelja.

Á göngu um Ólympíuþorpið hittu Bjarni og Þóra Margrét sundkappann Anton Svein McKee, en hann er einmitt í framboði til setu í íþróttamannanefnd Alþjóðaólympíunefndarinnar. Þá hittu forsætisráðherrahjónin líka Arnar Sigurðsson lækni og fyrrverandi afreksmann í tennis en hann er læknir sænska handkattleikslandsliðsins á leikunum.  

Í Ólympíuþorpinu er friðarveggur sem vígður var fyrir upphaf leikanna og ritaði Bjarni nafn sitt á þann vegg eins og íþróttafólk og fulltrúar þátttökuþjóða hafa gert að undanförnu.

Myndir með frétt