Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

22

Fánaberar Íslands á ÓL í París

11.07.2024

 

Forsetahjón Íslands, Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid, buðu til móttöku á Bessastöðum í dag til heiðurs Ólympíuhópi ÍSÍ 2024. Við það tilefni kynnti  Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) fánabera Íslands á setningarhátíð Ólympíuleikanna í París 2024. Frá 2020 hefur Alþjóðaólympíunefndin lagt áherslu á að frá öllum löndum séu tilnefndir tveir fánaberar, bæði karl og kona.

Fánaberar Íslands verða þau Guðlaug Edda Hannesdóttir sem keppir í þríþraut og Hákon Þór Svavarsson sem keppir í haglabyssuskotfimi. Þau eru bæði að keppa í fyrsta sinn á Ólympíuleikum og fá þennan heiður samhliða frumraun sinni. Jafnframt verður þetta í fyrsta sinn sem keppandi í skotíþróttum og þríþraut er fánaberi Íslands á setningarhátíð Ólympíuleikanna.

Að þessu sinni verður verður ekki hefðbundin innganga á setningarhátíð heldur sigla fulltrúar allra landa á bátum eftir ánni Signu í hjarta Parísarborgar. Setningarhátíðin er sú stærsta sem haldin hefur verið í sögu Ólympíuleikanna.

Íslands á fimm keppendur á Ólympíuleikunum í París, þau Guðlaugu Eddu Hannesdóttur í þríþraut, Hákon Þór Svavarsson í skotíþróttum, Anton Svein McKee og Snæfríði Sól Jórunnardóttur í sundi og Ernu Sóleyju Gunnarsdóttur í frjálsíþróttum. Það verður spennandi og skemmtilegt að fylgjast með þeirra vegferð á leikunum.

ÍSÍ óskar öllum Ólympíuförunum góðs gengis á leikunum.