Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26.07.2024 - 28.11.2019

París 2024

Ólympíuleikarnir fara fram í París í...
20.09.2024 - 21.09.2024

Ársþing SKÍ 2024

Ársþing Skíðasambands Íslands verður haldið...
22.10.2026 - 28.11.2019

YOG 2026 - Dakar

Ólympíuleikar ungmenna (YOG) fara fram í...
30

Buðu upp á köku þegar starfsfólk sagði frá mistökum

20.06.2024

 

Hvað gerist ef fólk gerir mistök í starfi? Yfirleitt ekki neitt, að sögn Grétu Maríu Grétarsdóttur, forstjóra Heimkaupa og fyrrverandi landsliðskonu í körfuknattleik. Hún hélt erindi á kvennahittingi á vegum ÍSÍ og UMFÍ í Sjálandi í Garðabæ sem haldinn var í tilefni af kvenréttindadeginum. Viðburðurinn var haldinn í kjölfar ráðstefnunnar Konur og íþróttir, sem fram fór á Alþjóðlegum baráttudegi kvenna í mars. Ráðstefnan tókst afar vel og voru þátttakendur mjög ánægðir með hana.
Rúmlega áttatíu konur mættu á viðburðinn í Sjálandi og var andrúmsloftið létt og skemmtilegt.
 
Tveir fyrirlestrar voru á dagskrá, fyrst steig Herdís Pála Pálsdóttir, markþjálfi og reyndur mannauðsstjóri á svið, en hún starfar í dag hjá EFTA í Brussel. Hennar erindi fjallaði um það hvernig hámarka má ánægju og árangur á sama tíma. Hún talaði um mikilvægi þess að konur (og menn) legðu áherslu á að halda þekkingu sinni við, ekki endilega með því að bæta við sig prófgráðum heldur líka með því að lesa bækur og kynna sér nýjungar. 
 
Gréta María hélt seinni fyrirlesturinn, sem bar yfirskriftina: Að standa með sjálfum sér! Gréta María hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu. Hún talaði um hvernig leiðtogafærni hennar úr íþróttum bæði sem leikmaður og þjálfari hefur hjálpað henni í stjórnendastörfum í atvinnulífinu. Hún ræddi meðal annars um íþróttaferil sinn og starfsferil og velti fyrir sér mistökum sem fólk gerir í starfi. Gréta María var framkvæmdastjóri Krónunnar árin 2018 til 2020. Þar gerði hún áhugaverða tilraun til að draga fram mistök, bæði fyrir fólk til að styrkjast af þeim í starfi og til að læra af þeim. Fólk sé hins vegar tregt til að tala um mistök sín og til að laða þau fram var ákveðið að bjóða upp á köku þegar einhver viðurkenndi mistök sín.
 
Jón Sigurðsson, trúbador tók svo lagið og fékk konur til að standa upp, fara út á gólf, dansa saman, taka lagið og styrkja tengslin um leið.

Myndir með fréttinni tók Jón Aðalsteinn Bergsveinsson og fleiri myndir frá viðburðinum má finna hér. 

 

Myndir með frétt