Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

22

Heiðrun á aðalfundi Íþróttafélags fatlaðra í Reykjavík

31.05.2024

 

Aðalfundur Íþróttafélags fatlaðra í Reykjavík (ÍFR) fór fram í Hátúni 14 30. maí sl. 

Fimm einstaklingar voru sæmdir Gullmerki ÍSÍ á aðalfundinum í tilefni þess að 50 ár eru frá stofnun félagsins. Það voru þeir Garðar Steingrímsson, formaður ÍFR til margra ára, Eiríkur Ólafsson stjórnarmaður til margra ára, Þórður Ólafsson framkvæmdastjóri félagsins til margra ára og Kristján Jónasson borðtennisþjálfari.

Hafsteinn Pálsson meðstjórnandi í framkvæmdastjórn ÍSÍ, sem einnig er formaður Heiðursráðs ÍSÍ, afhenti ofangreindum heiðursviðurkenningarnar.

Þess má geta að ÍSÍ hafði forgöngu um stofnun félagsins á sínum tíma í kjölfar samþykktar á Íþróttaþingi ÍSÍ 1972 þar sem framkvæmdastjórn ÍSÍ var falið að vinna að aukinni og bættri aðstöðu til íþróttaiðkana meðal fatlaðra landsmanna. ÍSÍ skipaði í kjölfarið undirbúningsnefnd sem í sátu Sigurður Magnússon fyrrverandi framkvæmdastjóri ÍSÍ sem þá var útbreiðslustjóri ÍSÍ, Guðmundur Löve frá Öryrkjabandalaginu og Trausti Sigurlaugsson frá Sjálfsbjörgu.

ÍFR var fyrsta sérfélagið á Íslandi um íþróttir fatlaðra, stofnað 1974, en Íþróttafélag fatlaðra á Akureyri, sem nú ber nafnið Íþróttafélagið Akur var einnig stofnað á því sama ári. Fyrsta íþróttafélag þroskaheftra, Íþróttafélagið Eik, var svo stofnað 1978 og Íþróttafélagið Ösp árið 1980. Á næstu árum voru svo stofnuð íþróttafélög fatlaðra um land allt. Þegar undirbúningsnefnd ÍSÍ hafði starfað í sjö ár voru félög fatlaðra orðin níu og umfang starfsins hafði aukist verulega. Stjórn ÍSÍ taldi þá tímabært að stofna sérsamband um íþróttir fatlaðra. Íþróttasamband fatlaðra var stofnað árið 1979 og var Sigurður Magnússon kjörinn fyrsti formaður sambandsins, með samþykki og stuðningi stjórnar ÍSÍ.