Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

15

Létt yfir ársþingi UMSS og heiðrun formanns

29.04.2024

 

Ungmennasamband Skagafjarðar (UMSS) hélt ársþing sitt í félagsheimilinu Tjarnabæ laugardaginn 27. apríl síðastliðinn.  Þingforseti var Gunnar Sigurðsson og stýrði hann þinginu af röggsemi og jafnframt léttleika.  Alls voru 37 þingfulltrúar mættir til þings af 59 mögulegum frá 8 aðildarfélögum af 10. 

Skýrsla stjórnar var flutt af framkvæmdastjóra UMSS, Thelmu Knútsdóttur og kynnti hún einnig reikninga sambandsins.  Nokkrar tillögur lágu fyrir þinginu og um þær urðu góðar umræður í þingnefndum.  Þær voru allar samþykktar samhljóða, þar á meðal fjárhagsáætlun UMSS eftir lítilsháttar breytingar frá þingnefnd. 

Stjórn UMSS skipa nú þau Gunnar Þór Gestsson formaður, Þuríður Elín Þórarinsdóttir gjaldkeri, Þorvaldur Gröndal ritari, Aldís Hilmarsdóttir og  Kolbrún Marvia Passaro.  Í varastjórn eru þeir Elvar Einarsson, Indriði Ragnar Grétarsson og Jóel Þór Árnason. 

Fulltrúi ÍSÍ á þinginu var Viðar Sigurjónsson, sérfræðingur á stjórnsýslusviði ÍSÍ. Hann sá jafnframt um, fyrir hönd framkvæmdastjórnar ÍSÍ, að sæma Gunnar Þór Gestsson, formann UMSS, Gullmerki ÍSÍ fyrir mikil og góð störf í þágu íþrótta en Gunnar Þór hefur lengi sinnt leiðtogastörfum í íþróttahreyfingunni, m.a. sem formaður Umf. Tindastóls, sem formaður UMSS, í stjórnarstörfum á vegum UMFÍ og einnig hefur hann átt sæti í nefndum og ráðum á vegum ÍSÍ.

ÍSÍ óskar Gunnari Þór innilega til hamingju með viðurkenningu og þakkar um leið fyrir hans framlag til íþróttanna í landinu.

Myndir/UMSS

Myndir með frétt