Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

15

Verndun og velferð í íþróttum

16.04.2024

 

Fimleikasamband Íslands, í samstarfi við Háskólann í Reykjavík, stóð fyrir málþingi um helgina um verndun og velferð (e. safeguarding) barna, unglinga og afreksfólks íþróttum. Verndun og velferð (e. safeguarding) snýst um hvernig hægt er að sporna gegn ofbeldi og áreitni í íþróttum og hvernig bregðast skal við þegar eitthvað kemur upp.  Þessi málaflokkur er ört stækkandi í alþjóða íþróttahreyfingunni en Alþjóða Ólympíunefndin, ásamt flestum alþjóðasamböndum í hverri íþróttagrein fyrir sig, eru að leggja mikla áherslu á þennan málaflokk með ýmsum leiðum.

Málþingið byrjaði eftir hádegi á föstudag en var fram eftir degi á laugardag.  Dagskráin var þétt og voru margir áhugaverðir fyrirlesarar með erindi á málþinginu, m.a. fyrirlesarar frá Belgíu, sérfræðingar á sínu sviði, sem starfa sem ráðgefandi aðilar í þessum málefnum til Alþjóða Ólympíunefndarinnar. 

Kristín Birna Ólafsdóttir, sérfræðingur á Afrekssviði ÍSÍ, hélt erindi um málaflokkinn á föstudag en hún sækir nú nám hjá Alþjóða Ólympíunefndinn um verndun og velferð (e. safeguarding officer in sport) og hefur látið sig málið mikið varða síðustu ár. Kristín Birna ræddi almennt um ofbeldi og áreitni í íþróttum og hvað það er sem ÍSÍ hefur gert til að stuðla að verndun og velferð íþróttafólks.  Hún sagði einnig frá raunsögu um það hvernig óæskileg hegðun og menning, sem fær að viðgangast hjá íþróttaliði, getur haft slæmar afleiðingarnar til lengri tíma, ef ekkert er að gert.  

Á laugardeginum tók Samskiptaráðgjafi til máls og kynnti sína starfsemi en þjónusta Samskiptaráðgjafans var sett á laggirnar árið 2020. Meginmarkmiðið er að taka við viðkvæmum málum sem upp koma í íþrótta- og æskulýðsstarfi á Íslandi og gegnir hann því mikilvægu hlutverki fyrir íþróttahreyfinguna í þessu sambandi. Ýmislegt fleira er þó hægt að gera til að stuðla að verndun og velferð, t.d. regluleg fræðslu um málefnið á öllum stigum innan íþrótta.

Dr. Hafrún Kristjánsdóttir, deildarforseti hjá Háskólanum í Reykjavík, fylgdi svo á eftir Samskiptaráðgjafanum og kynnti hún nýja tölfræði í tengslum við kynferðislega áreitni í þróttum á Íslandi. Birta Björnsdóttir, mannréttinda- og fræðslustjóri hjá ÍBR sagði frá því góða starfi sem fram fer hjá ÍBR í tengslum við verndun og jafnréttismál. Að því loknum fjallaði dr. Tine Vertomenn, ráðgjafi Alþjóða Ólympíunefndarinnar, almennt um ofbeldi og áreitni í þróttum, útskýrði skilgreiningar, fór yfir tölfræði og kynnti hvað stofnanir geta gert til að stuðla að verndun og velferð. 

Á laugardeginum var einnig vinnustofa sem An De Kock, sérfræðingur hjá Centre for Ethics in Sport í Belgíu stýrði. Að lokum hélt dr. Paul Wylleman sálfræðingur hjá Belgísku Ólympíunefndinni fyrirlestur um geðheilsu, afreksíþróttir og hvernig stofnanir skulu nálgast sálfræðiþjónustu fyrir afreksíþróttafólkið sitt. 

Fimleikasambandinu ber að hrósa fyrir framtakið. Þarft er að ræða og fræða um verndun og velferð og kynna þá möguleika sem í boði eru til að bregðast við. Þess má geta að Kristín Birna, starfsmaður ÍSÍ, og Kolbrúnu Hrund Sigurgeirsdóttir, meðlimur í framkvæmdastjórn ÍSÍ og verkefnastýra Jafnréttisskóla Reykjavíkur, sóttu málþing á vegum Evrópusambands Ólympíunefnda (EOC) á dögunum í Brussel þar sem áherslan var á verndun og velferð í tengslum við kvenheilsu og kynjajafnrétti. Kolbrún Hrund er einnig í nefnd hjá EOC um kynjajafnrétti (EOC Gender Equity Commission). Á málstofunni voru farið í tvær vinnustofur, annarsvegar um verndun og hinsvegar um kynjajafnrétti og koma þær reynslunni ríkari heim eftir þessa heimsókn.

Hér má finna nánari upplýsingar um Samskiptaráðgjafa!

Hér má einnig kynna sér nánari upplýsingar um málefnið.

Á myndunum sem fylgja má sjá Kristínu Birnu og Kolbrúnu á ráðstefnunni í Brussel og hópmynd af öllum þátttakendum saman.  

Myndir með frétt