Þrír heiðraðir á ársþingi HSH
Héraðssamband Snæfellsness og Hnappadalssýslu (HSH) hélt ársþing sitt í Lýsuhólsskóla á Snæfellsnesi fimmtudaginn 11. apríl síðastliðinn. Afar vel var mætt til þings, alls voru 38 þingfulltrúar mættir af 43 mögulegum. Þingforsetar voru þau Kristján Þórðarson og Ragnhildur Sigurðardóttir og stýrðu þau þinginu af öryggi og lipurð.
Þónokkrar tillögur lágu fyrir þinginu og fengu þær góða umfjöllun í nefndum. Allar voru þær samþykktar og sumar með lítilsháttar breytingum. Nefna má hvatningartillögu þess efnis að aðildarfélög HSH sæki um það að fá viðurkenningu sem Fyrirmyndarfélög ÍSÍ en þess má einmitt geta að HSH er komið í vinnuferli til að sækja um viðurkenningu sem Fyrirmyndarhérað ÍSÍ.
ÍSÍ veitti þremur aðilum heiðursmerki á þinginu. Bjarni Alexandersson og Gunnar Kristjánsson, stofnfélagar í Hestamannafélaginu Snæfellingi, voru sæmdir Gullmerki ÍSÍ og Kristján Ágúst Magnússon frá Ungmennafélaginu Eldborg var sæmdur Silfurmerki ÍSÍ.
Stjórn HSH var öll endurkjörin og hana skipa þau Hjörleifur Kristinn Hjörleifsson formaður, Berglind Long varaformaður, Garðar Svansson gjaldkeri, Laufey Bjarnadóttir ritari og Kristfríður Rós Stefánsdóttir meðstjórnandi.
Fulltrúi ÍSÍ á þinginu var Viðar Sigurjónsson sérfræðingur á Stjórnsýslusviði. Viðar var einnig með kynningu á þinginu um Fyrirmyndarhéruð og Fyrirmyndarfélög ÍSÍ og þá þætti sem uppfylla þarf til að fá slíkar viðurkenningar.
Myndir frá þinginu/HSH.