Framkvæmdanefnd Ólympíuhátíðar Evrópuæskunnar á Íslandi
Vetrar- og sumarhátíð EYOF eru haldnar annað hvert ár og gefa ungu íþróttafólki á aldrinum 14-18 ára tækifæri til að keppa á alþjóðlegu fjölíþróttamóti í fyrsta sinn.
Líney Rut Halldórsdóttir, ráðgjafi ÍSÍ og fyrrverandi framkvæmdastjóri ÍSÍ, er stjórnarmaður í framkvæmdastjórn Evrópusambands Ólympíunefnda (EOC) og er hún jafnframt formaður framkvæmdanefndar EYOF (EOC EYOF Commission). Nefndin, sem telur 25 meðlimi, fundaði í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal 4. apríl síðastliðinn. EOC sendi einnig þrjá starfsmenn til að starfa á fundinum.
Á dagskrá fundarins voru ýmis mál er tengjast hátíðunum. Næstu hátíðir (vetrar og sumar) fara fram á næsta ári og voru kynningar um stöðu undirbúnings fyrir þá. Vetrarhátíðin verður haldin í janúar í Bakuriani í Georgíu og sumarhátíðin verður í Skopje í Norður Makedóníu í júlí. Einnig voru umræður um mögulega gestgjafa fyrir hátíðirnar 2027, 2029 og 2031.
Auk þess voru fulltrúar Íþróttamannanefndar EOC, Heilbrigðisnefndar og nefndar um verndun og velferð íþróttafólks með áhugaverð erindi á fundinum.
Líney Rut Halldórsdóttir sagði í kjölfar fundarins: „Það var ánægjulegt að taka á móti þessari stóru nefnd hér á landi og geta gefið þeim innsýn í okkar starfsaðstæður samhliða fundarhöldum í Laugardalnum. Fundurinn var málefnalegur og góðar umræðum urðu um helstu verkefni nefndarinnar. Skipulag, undirbúningur og framkvæmd Ólympíuhátíðanna er umfangsmikið verkefni og í mörg horn að líta svo vel megi takast til. Þátttaka í Ólympíuhátíðinni markar oftar en ekki tímamót fyrir ungt íþróttafólk þar sem það keppir á sínu fyrsta alþjóðlega fjölíþróttamóti. Við höfum séð marga EYOF þátttakendur halda áfram að ná góðum árangri í sínum íþróttagreinum á alþjóðavísu og mörg þeirra hafa unnið til verðlauna á Ólympíuleikum og Evrópuleikunum. EOC er staðráðið í að halda áfram að gefa ungu íþróttafólki tækifæri til að keppa á móti jafnöldurm sínum hvaðanæva úr Evrópu og ekki síst kynnast mismunandi siðum og menningu annarra þjóða. Við hlökkum til bæði vetrar- og sumarhátíðanna á næsta ári 2025 og erum nú þegar með mögulega mótshaldara fyrir hátíðir í framtíðinni.“
Myndirnar eru frá fundinum og þegar hópurinn fór allur í skoðunarferð út fyrir bæinn.