Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

15

Heiðrun á Sambandsþingi UMSB

20.03.2024

 

102. Sambandsþing Ungmennasambands Borgarfjarðar (UMSB) var haldið miðvikudaginn 13. mars sl., á Hvanneyri og var mæting á þingið mjög góð. Þingforsetar voru Kristján Gíslason og Flemming Jessen og ritarar þingsins þær Rakel Dögg Sigurgeirsdóttir og Sigurbjörg Þórunn Marteinsdóttir.

Ný stjórn var kjörin en Guðrún Hildur Þórðardóttir, sambandsstjóri, gaf aftur kost á sér og hlaut kosningu.  Þrjú stigu úr stjórn, þau Ólafur Daði Birgisson, varasambandsstjóri, Sölvi G. Gylfason, gjaldkeri, og Elisabeth Ýr Mosbech Egilsdóttir, meðstjórnandi, og í þeirra stað komu Sigurbjörg Þórunn Marteinsdóttir, kjörin varasambandsstjóri, Svala Svavarsdóttir, gjaldkeri, og Kristján Jóhannes Pétursson, meðstjórnandi.  Rakel Dögg Sigurgeirsdóttir heldur áfram sem ritari, þar sem hún er núna á sínu seinna ári sem ritari.

Stærsta málið á þinginu, að þessu sinni, snéri að úthlutunarreglum lottótekna, en lagðar voru til breytingar á úthlutunarreglum UMSB sem taka mið af úthlutunarreglum UMFÍ og ÍSÍ, sem taka gildi 1. apríl nk. Þeirra reglur munu eingöngu taka tillit til íbúa 18 ára og yngri á hverju svæði fyrir sig og mun útbreiðslustyrkur ÍSÍ detta út að auki.  Töluverðar umræður sköpuðust um málið, sem þó var samþykkt að lokum gegn því að endurskoða það að ári þegar reynsla væri komin á málið.  Aðrar reglugerðarbreytingar voru þær að kjörgengi íþróttafólks fyrir kjör á íþróttamanneskju ársins yrði hækkað í 16 ár, í stað 14 ára áður, enda gengur það gegn markmiðum íþróttahreyfingarinnar að afreksvæða börn.  Hlaupahópurinn Flandri sótti um inngöngu í UMSB og var samþykktur, með þeim fyrirvara að ÍSÍ samþykki umsóknina.

Þórey Edda Elísdóttir, 1. varaforseti ÍSÍ, ávarpaði þingið fyrir hönd framkvæmdastjórnar ÍSÍ og sæmdi Pál Snævar Brynjarsson Gullmerki ÍSÍ og Oddnýju Evu Böðvarsdóttur Silfurmerki ÍSÍ fyrir þeirra ómetanlegu störf.  ÍSÍ óskar þeim innilega til hamingju með viðurkenningarnar og þakkar þeim innilega fyrir þeirra framlag í þágu íþróttanna í landinu.

Ítarlegri frétt, þinggerð, árskýrsla og ársreikningur UMSB, ásamt ársskýrslum aðildarfélaga má finna hér.  

Myndir frá þinginu/Gunnhildur Lind Hansdóttir

Myndir með frétt