Marín og Valgerður í verkefni á vegum Ólympíusamhjálparinnar
Verkefnið Continental Youth Training Camp á vegum Alþjóðabogfimisambandsins og Ólympíusamhjálparinnar var haldið 5. - 11. febrúar sl. Marín Aníta Hilmarsdóttir, bogfimikeppandi, og Valgerður Einarsdóttir Hjaltested, þjálfari, tóku þátt í boði ÍSÍ og Ólympíusamhjálparinnar en verkefnið var í formi æfingabúða sem haldnar voru í Tyrklandi. Æfðu stelpurnar með tyrkneska landsliðinu, sem er framarlega í heiminum í bogfimi.
Continental Youth Training Camp er haldið í hverri heimsálfu, fyrir hverja Ólympíuleika og er fyrir þjóðir sem eru smærri til miðlungsstórar, þ.e. m.v. þátttökufjölda á Ólympíuleikum. Þátttökurétt hefur íþróttafólk, 23 ára og yngra, sem náð hefur ákveðnum lágmörkum og er líklegt til þátttöku á Ólympíuleikum í framtíðinni.
Marín æfði og keppti í æfingabúðunum en Valgerður fór út sem þjálfari og sat ýmis námskeið ásamt þjálfurum tyrkneska landsliðsins.