Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

20.09.2024 - 21.09.2024

Ársþing SKÍ 2024

Ársþing Skíðasambands Íslands verður haldið...
10.10.2024 - 10.10.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
01.11.2024 - 30.11.2024

Syndum

Verkefnið Syndum hefst 1. nóvember og stendur...
18

Skráning íþrótta- og ungmennafélaga á Almannaheillaskrá

07.02.2024

 

Íþrótta- og ungmennafélög á landinu geta skráð sig á almannaheillaskrá og þannig nýtt frádrátt frá skattskyldum tekjum vegna gjafa og framlaga til lögaðila sem uppfylla tiltekin skilyrði og eru í almannaheillaskrá sem Skatturinn heldur.

Hér á heimasíðu ÍSÍ má finna leiðbeinandi upplýsingar varðandi skráningu íþróttafélaga á Almannaheillaskrá RSK og skráningu á almannaheillafélagi, sem unnar voru í samráði við Skattinn árið 2021, þegar breytingar voru gerðar á lögum um skatta og gjöld.

Íþrótta- og ungmennafélög þurfa einungis að huga að skráningu í Almannaheillaskrá þar sem þau teljast nú þegar almannaheillafélög.

Ekki þarf að breyta lögum félaga og hvorki þarf að greiða nýskráningargjald né breytingagjald við skráningu í Almannaheillaskrá.

Skráning íþrótta- og ungmennafélaga í Almannaheillaskrá fer fram í gegnum innskráningu á heimasvæði viðkomandi félags á þjónustuvef skattsins (skattur.is) og er skráningin tiltölulega einföld, sjá leiðbeiningar.

Skráningin er ætluð óhagnaðardrifnum félögum og stofnunum sem vilja að styrktaraðilar geti nýtt framlög sín til lækkunar á tekjuskatts- og útsvarsstofni sínum. Frádráttur einstaklinga getur verið á bilinu 10-350 þúsund krónur á hverju ári og framlög koma til lækkunar á útsvars- og tekjustofni. Frádráttur fyrirtækja getur numið allt að 1,5% af rekstrartekjum auk þess sem fyrirtæki geta dregið frá 1,5% vegna aðgerða eða framlögum til aðgerða, sbr. skógrækt og landgræðsla, sem stuðla að kolefnajöfnun, samtals 3%. 

Skilyrði fyrir frádrætti hjá gefendum er að móttakandi sé skráður á almannaheillaskrá hjá Skattinum á því tímamarki sem gjöf er afhent eða framlag veitt og gildir frádráttarheimildin um framlög sem berast frá og með þeim degi sem sótt var um skráningu á almannaheillaskránna. Á heimasíðu Skattsins er að finna uppfærða skrá yfir lögaðila sem skráðir eru á almannaheillaskrá hverju sinni.

Endurnýja skal skráningu á almannaheillaskrá árlega fyrir hvert byrjað almanaksár, ekki síðar en 15. febrúar ár hvert.  

ÍSÍ hvetur forystu íþrótta- og ungmennafélaga í landinu til að skrá félögin á almannaheillaskrá og eiga þannig möguleika á að nýta sér þann skattalega hvata sem skráningin getur gefið.