Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

20.09.2024 - 21.09.2024

Ársþing SKÍ 2024

Ársþing Skíðasambands Íslands verður haldið...
10.10.2024 - 10.10.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
25.10.2024 - 26.10.2024

Landsþing LH 2024

Ársþing Landssambands hestamannafélaga verður...
20

Setning Lífshlaupsins fór fram í dag

07.02.2024

 

Setning Lífshlaupsins 2024 fór fram í höfuðstöðvum embættis landlæknis í dag, og er þetta í sautjánda sinn sem það fer fram. Samhliða voru uppfærðar ráðleggingar frá embætti landlæknis um hreyfingu og takmörkun á kyrrsetu kynntar. Alma D. Möller landlæknir bauð gesti velkomna og stýrði setningunni. Þeir aðilar sem ávörpuðu samkomuna voru: Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra, Lárus Blöndal, forseti ÍSÍ og Arna Sigríður Albertsdóttir, íþróttafræðingur, afrekskona í íþróttum og verkefnastjóri hjá Þroskahjálp.

Á eftir þeim var kynning á endurskoðuðum ráðleggingum um hreyfingu og takmörkun kyrrsetu. Gígja Gunnarsdóttir, fór yfir almennar hreyfiráðleggingar og nýjar ráðleggingar fyrir fatlaða fullorðna og börn. Birna Baldursdóttir, frá Háskólanum í Reykjavík kynnti uppfærðar ráðleggingar fyrir börn og ungmenni, Auður Ólafsdóttir, frá Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu kynnti ráðleggingar fyrir fullorðna, Nanna Ýr Arnardóttir frá Háskólanum á Akureyri kynnti hreyfiráðleggingar fyrir eldra fólk og Hildur Guðný Ásgeirsdóttir, frá embætti landlæknis kynnti hreyfiráðleggingar á meðgöngu og eftir fæðingu. Í lokin kynntu þau Anna Karólína Vilhjálmsdóttir frá Íþróttasambandi fatlaðra og Valdimar Gunnarsson, verkefnastjóri ÍF verkefnið Allir með.

Nýjar ráðleggingar innihalda ekki aðeins ráðleggingar um hreyfingu heldur einnig sjálfstæðar ráðleggingar um takmörkun kyrrsetu. Í fyrsta sinn eru gefnar út ráðleggingar sem beinast sérstaklega að fjölbreyttum hópi fatlaðs fólks.  Önnur helsta breytingin snýr að aldurshópunum fullorðnir og eldra fólk – þar hefur lykilráðleggingin breyst úr því að vera minnst 30 mínútur af rösklegri hreyfingu samtals á dag, alla daga vikunnar, í það að vera minnst 150 mínútur (2,5 klst) af rösklegri hreyfingu samtals á viku (auk annarra leiða til að uppfylla viðmiðin). Áfram er lögð áhersla á að börn og ungmenni hreyfi sig reglulega og stundi rösklega til kröftuga hreyfingu í minnst 60 mínútur á dag en nú er miðað við að því sé náð að meðaltali yfir vikuna. Enn meiri áhersla er lögð á styrkþjálfun allra hópa, ekki síst eldra fólks. Hreystihópur 67+ er einmitt nýr þátttökuhópur í Lífshlaupinu í ár. Nú er ekki lengur miðað við að röskleg eða kröftug hreyfing þurfi að vara í minnst 10 mínútur til að telja, nú telja allar mínútur í hreyfingu af þessari ákefð. Almennt er rík áhersla á að taka mið af aðstæðum á hverjum tíma og ávallt er betra að hreyfa sig lítið eitt en ekki neitt. Takmörkum kyrrsetu – öll hreyfing skiptir máli.

Lífshlaupið er heilsu- og hvatningarverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands sem höfðar til allra aldurshópa, þar sem landsmenn eru hvattir til að huga að sinni daglegu hreyfingu og auka hana eins og kostur er þ.e. í frítíma, vinnu, í skóla og við val á ferðamáta. Vinnustaðir, skólar og einstaklingar eru hvattir til að taka þátt og nota þannig tækifærið til að efla líkama og sál með því að hreyfa sig daglega.

Á heimasíðu Lífshlaupsins www.lifshlaupid.is má finna ýmislegt gagnlegt og það má einnig senda línu á lifshlaupid@isi.is ef ykkur vantar aðstoð. Nánari upplýsingar um ráðleggingar um hreyfingu má finna á síðu embættis landlæknis.

Sýnt var beint frá setningunni í streymi sem má finna hér. Hér eru nokkrar myndir frá setningunni (PIX/Arnaldur Halldórsson).

Myndir með frétt