Vel heppnuð ráðstefna RIG
Síðastliðinn fimmtudag fór fram áhugaverð ráðstefna sem RIG, ÍBR, ÍSÍ, UMFÍ og Háskólinn í Reykjavík stóðu fyrir og bar yfirskriftina „Er pláss fyrir öll í íþróttum?”. Ráðstefnan er hluti af Reykjavíkurleikunum (RIG) sem Íþróttabandalag Reykjavíkur á veg og vanda að.
Ráðstefnan var með öðru sniði en oftast nær, en í stað fyrirlestra voru sex pallborð, þar sem rædd voru málefni íþróttafólks með fötlun, þátttaka hinsegin og kynsegin fólks í íþróttum og þátttaka barna og ungmenna af erlendum uppruna í íþróttastarfi.
Ráðstefnustjóri var Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson íþróttafréttamaður og Jón Björn Ólafsson, íþrótta- og fjölmiðlafulltrúi Íþróttasambands fatlaðra, Bára Hálfdánardóttir, Sveinn Sampsted og Sema Erla Serdaroglu leiddu pallborðsumræður, hvert á sínu sérsviði. Pallborðsumræðurnar voru bæði fræðandi og skemmtilegar og komu mörg ólík sjónarmið fram sem íþróttahreyfingin getur tekið til sín. Ingvar Sverrisson formaður Íþróttabandalags Reykjavíkur (ÍBR) setti ráðstefnuna og Einar Þorsteinsson borgarstjóri Reykjavíkur átti lokaorðin.
Skráðir þátttakendur í sal voru 74 og í streymi voru 108. Ráðstefnan var tekin upp og verður hún aðgengileg á Youtube síðu Reykjavíkurleikanna á næstunni.
Myndir með fréttinni tók Jón Aðalsteinn Bergsveinsson.