Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

25.10.2024 - 26.10.2024

Landsþing LH 2024

Ársþing Landssambands hestamannafélaga verður...
01.11.2024 - 30.11.2024

Syndum

Verkefnið Syndum hefst 1. nóvember og stendur...
21.11.2024 - 21.11.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
13

Ólympíuleikar ungmenna í Gangwon hefjast í dag

19.01.2024

 

Í dag, föstudaginn 19. janúar, hefjast Ólympíuleikar ungmenna en þeir fara að þessu sinni fram í Gangwon í Suður Kóreu. Þetta verða fjórðu Vetrarólympíuleikar ungmenna og verða þeir haldnir á sama stað og Vetrarólympíuleikarnir sem voru í Suður-Kóreu árið 2018. Setningarhátíð leikanna er í dag og verða Eyrún Erla Gestsdóttir og Dagur Ýmir Sveinsson, keppendur í alpaskíðum, fánaberar Íslands. Þar mun hátíðin verða formlega sett og Ólympíueldurinn tendraður. Ólympíuleikar ungmenna munu standa til 1. febrúar og ljúka með lokahátíð, venju samkvæmt. Að þessu sinni taka 74 þjóðir þátt, með alls 1.197 keppendum og þjálfarateymum.

Hér má finna hlekk að streymi en setningarhátíðin hefst kl.11.00 á íslensku tíma.

Um helgina munu íslensku keppendurnir hefja æfingar og lokaundirbúning áður en keppni hefst en fyrsti keppnisdagurinn verður á þriðjudag, 23.janúar, þegar keppni í alpagreinum hefst. Dagur Ýmir Sveinsson, Eyrún Erla Gestsdóttir og Þórdís Helga Grétarsdóttir keppa þar fyrir Íslands hönd. Keppnisdagar eru eftirfarandi: 23. janúar stórsvig kvenna, 24. janúar stórsvig karla og 25. janúar svig karla og kvenna.

Keppni í snjóbrettum hefst á miðvikudag, 24. janúar og keppir þar Júlíetta Iðunn Tómasdóttir fyrir Íslands hönd. Reynar Hlynsson átti einnig að keppa á snjóbrettum en forfallaðist á síðustu stundu vegna meiðsla. Forkeppni Big Air verður svo þann 27. janúar og úrslit daginn eftir. 

Keppni í skíðagöngu hefst 29. janúar með sprettgöngu og verður keppni í skíðagöngu daginn eftir. Hjalti Böðvarsson og María Kristín Ólafsdóttir munu taka þar þátt.  

Að sögn Brynju Guðjónsdóttur, aðalfararstjóra hópsins, eru aðstæður góðar í Gangwon og veðrið kunnuglegt, með kulda, úða og þoku. Þorpið, þar sem keppendur og teymi í alpaskíðum og skíðagöngu gista í er á Pyeongchang svæðinu og hefur öll þau þægindi og þjónustu sem þarf. Alpaskíðahópurinn er mættur til Gangwon en von er á keppendum á gönguskíðum og brettum um og eftir helgi. Skíðabrettahópurinn mun þó vera á öðru svæði sem heitir Jeongseon-gun og er aðeins frá Pyeongchang svæðinu.. 

Nánari upplýsingar, úrslit og fleira má finna á heimasíðu leikanna og mun nánari umfjöllun um gengi hópsins, birtast á næstu dögum.
Einnig bendum við á heimasíðu Skíðasambandsins og samfélagsmiðla fyrir fréttir og fleira.

Meðfylgjandi myndir eru af keppendum í alpagreinum; Þórdísi Helgu, Eyrúnu Erlu og Degi Ými, en þau eru öll mætt til Suður Kóreu. 

ÍSÍ óskar keppendum og teymi góðs gengis á leikunum sem framundan eru.

Myndir með frétt