Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
22

Íþróttafólk Garðarbæjar 2023

17.01.2024

 

Sunnudaginn 7. janúar sl. var tilkynnt um kjör á íþróttafólk Garðabæjar 2023 í Miðgarði í Garðabæ.  Voru það Friðbjörn Bragi Hlynsson, kraftlyftingamaður úr Stjörnunni og Ísold Sævarsdóttir, frjálsíþróttakona úr FH og körfuknattleiks úr Stjörnunni sem valin voru Íþróttakarl og Íþróttakona Garðabæjar.   


Íþróttakarl Garðabæjar 2023 er Friðbjörn Bragi Hlynsson kraftlyftingamaður Stjörnunni

Friðbjörn Bragi Hlynsson æfir klassískar kraftlyftingar hjá lyftingadeild Stjörnunnar. Friðbjörn keppir í -83kg flokki karla og hefur síðastliðin ár verið með stigahæstu keppendum í greininni. Friðbjörn kláraði keppnisárið 2023 með Íslandsmet í hnébeygju, réttstöðulyftu og samanlögðu og er bikarmeistari í klassískum kraftlyftingum hjá Kraftlyftingasambandi Íslands. Friðbjörn tók þátt fyrir Íslands hönd á tveimur mótum á árinu, Vestur-Evrópumótinu og Evrópumeistaramótinu. Hann gerði gott mót á báðum stöðum, vann sinn flokk á Vestur-Evrópumótinu og tók 11. sætið í mjög sterkum flokki á Evrópumeistaramótinu. Friðbjörn er fjölskyldumaður, menntaður íþróttafræðingur og kennir íþróttir á grunnskólastigi. Hann er deildinni og íþróttinni til mikils sóma og er það samróma álit allra sem kynnast honum að þarna er drengur góður á ferð.


Íþróttakona Garðabæjar 2023 er Ísold Sævarsdóttir frjálsíþrótta- og körfuknattleikskona

Ísold Sævarsdóttir var fyrirliði meistaraflokks kvenna hjá Stjörnunni sem vann 1. deildina í körfubolta í vor ásamt því að vinna fjölmarga titla í yngri flokkunum. Ísold var valin varnarmaður ársins í 1. deild kvenna. Einnig lék hún stórt hlutverk í góðum árangri U16 ára landsliði stúlkna sem náði besta árangri kvennaliðs í langan tíma á EM í Svartfjallalandi í sumar. Ísold hefur byrjað tímabilið frábærlega í Subway deildinni og toppaði svo árið með því að spila sína fyrstu A-landsleiki í körfubolta þar sem hún var í stóru hlutverki í leikjum á móti Tyrklandi og Rúmeníu.

Ísold er mjög fjölhæf frjálsíþróttakona þar sem hún keppir með FH. Hún náði þeim frábæra árangri að vinna gull á NM U18 í sjöþraut síðastliðið sumar þó hún sé aðeins 16 ára. Ísold er meðal bestu kvenna á afrekskrá FRÍ fullorðinna í mörgum greinum. Hér er talinn upp árangur hennar í frjálsum og staða á afrekslista FRÍ 2023; 400 m (1. sæti) 56,51 sek innanhúss og 57,46 sek utanhúss, í 400 m grindahlaupi (2. sæti) á 61,07 sek, fimmtarþraut innanhúss (1. sæti) með 3786 stig og í sjöþraut utanhúss (1. sæti) með 5277 stig.

Frétt og mynd/stjarnan.is

ÍSÍ óskar Friðbirni og Ísold innilega til hamingju með viðurkenningarnar sínar.