Velheppnuð vinnustofa Íþróttamannanefndar
Mánudaginn 8. janúar stóð Íþróttamannanefnd ÍSÍ fyrir vinnustofu til að efla afreksíþróttafólk á samfélagsmiðlum. Um 50 þátttakendur tóku þátt frá 23 sérsamböndum og hlýddu á Bryndísi Rut Kristófersdóttur, samfélagsmiðlasérfræðing og birtingastjóra frá auglýsingastofunni Kontor, er hún fór yfir möguleikana sem í boði eru fyrir íþróttafólk á samfélagsmiðlunum, til að auka ásýnd þeirra. Einng héldu Elísabet Gunnarsdóttir, áhrifavaldur og einn af stofnendum Trendnet, og Gunnar Steinn Jónsson, fyrrverandi atvinnu- og landsliðsmaður í handbolta, erindi þar sem þau sögðu frá sinni sögu og gáfu góð ráð hvernig hægt væri að auka ásýnd á samfélagsmiðlum. Í lokin fór fram stutt hópvinna þar sem Bryndís miðlaði áfram reynslu sinni til þátttakenda.
Íþróttamannanefndin þakkar öllum þeim sem tóku þátt og gáfu sér tíma í að hjálpa til að láta þessa vinnustofu verða að veruleika.