Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands kynnir Ólympíuhóp ÍSÍ

05.01.2024

 

Vegferðin á Ólympíuleikana í París 2024 er hafin!
Myndaður hefur verið Ólympíuhópur ÍSÍ sem samanstendur af afreksíþróttafólki sem hefur tryggt sig inn á Ólympíuleikana í París 2024 eða er í dauðafæri að komast inn á þá á næstu misserum.  Í þessum hópi er afreksíþróttafólk úr sjö íþróttagreinum, sem verður án efa gaman og spennandi að fylgjast með á næstunni, en mismunandi leiðir eru í flestum íþróttagreinum til að tryggja sér þátttökurétt.
Anton Sveinn McKee er sá eini sem hefur nú þegar unnið sér inn þátttökurétt á leikana en vonir eru bundnar við að Ísland muni eiga góðan hóp íþróttafólks á leikunum.
 
Ólympíuleikarnir eru stærsti íþróttavettvangur heims og þar keppa fremstu íþróttamenn heims í íþróttagreinum 32 alþjóðasérsambanda.   

Hópurinn samanstendur af níu aðilum úr einstaklingsgreinum auk karlalandsliðsins í handknattleik, en hópurinn mun taka breytingum eftir því sem nær dregur leikum og fleiri eða færri aðilar hafa raunhæfa möguleika á þátttöku.  
Í hópnum eru:

Anton Sveinn McKee, sund 
Eygló Fanndal Sturludóttir, lyftingar
Guðlaug Edda Hannesdóttir, þríþraut
Guðni Valur Guðnason, kringlukast
Hákon Þór Svavarsson, haglabyssuskotfimi
Hilmar Örn Jónsson, sleggjukast
Snæfríður Sól Jórunnardóttir, sund
Thelma Aðalsteinsdóttir, áhaldafimleikar 
Valgarð Reinhardsson, áhaldafimleikar
Karlalandsliðið í handknattleik

Á næstunni er ætlun ÍSÍ og sérsambanda að vekja athygli á þessu íþróttafólki og þeim viðburðum sem þau eru að keppa á til að vinna sér þátttökurétt á leikana í París, en þeir verða settir föstudaginn 26. júlí nk.
Kynningarmyndband hefur verið sett saman og frekara efni bíður birtingar sem ÍSÍ, sérsambönd og íþróttafólkið mun koma á framfæri á næstunni.  Kynningarmyndbandið má sjá á samfélagsmiðlum ÍSÍ. Afreksstjóri ÍSÍ, Vésteinn Hafsteinsson, heldur utan um Ólympíuhópinn en hann hefur áratuga reynslu, bæði sem þjálfari og afreksíþróttamaður í kringlukasti, og hefur nú þegar tekið þátt í 10 Ólympíuleikum. 

Það er von okkar að hópurinn fái sem mesta athygli og stuðning svo árangur þeirra verði sem bestur!  ÍSÍ óskar afreksíþróttafólkinu okkar og teymi góðs gengis í keppnunum sem framundan eru!

 

Myndir með frétt