Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
22

Guðrún Kristín Einarsdóttir er Íþróttaeldhuginn 2023

04.01.2024

 

Guðrún Kristín Einarsdóttir, sem starfað hefur fyrir Aftureldingu og Blaksamband Íslands, var í kvöld útnefnd Íþróttaeldhugi ársins 2023.

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, í samvinnu við Lottó, stóð fyrir þeirri nýbreytni síðast þegar Íþróttamaður ársins var útnefndur að útnefna við sama tækifæri Íþróttaeldhuga ársins úr röðum sjálfboðaliða í íþróttahreyfingunni.  Guðrún Kristín er því annar íþróttaeldhuginn frá upphafi. Með þessari útnefningu vill ÍSÍ vekja athygli á starfi sjálfboðaliðans og koma á framfæri þakklæti fyrir framlag sjálfboðaliða um land allt en sjálfboðaliðar gegna geysimikilvægu hlutverki hjá öllum íþróttafélögum landsins og gera það að verkum að starfið í hreyfingunni er eins öflugt og raun ber vitni.   Guðrún Kristín hlaut veglegan verðlaunagrip sem Sigurður Ingi Bjarnason gullsmiður hannaði sérstaklega fyrir þennan góða titil.

Þrír einstaklingar voru valdir úr fjölda tilnefninga sem bárust ÍSÍ, úr íþróttahreyfingunni og frá almenningi. Þau þrjú sem heiðruð voru í kvöld fyrir þeirra ómetanlegu störf voru:
Edvard Skúlason, sem starfað hefur fyrir Knattspyrnufélagið Val (knattspyrna),
Guðrún Kristín Einarsdóttir, sem starfað hefur fyrir Aftureldingu og Blaksamband Íslands (blak), 
Ólafur Elí Magnússon, sem starfað hefur fyrir Íþróttafélagið Dímon (borðtennis, glíma, blak, badminton og frjálsíþróttir).

Öll hafa þau unnið mikið og óeigingjarnt starf í þágu íþrótta.
Í umsögnum um Guðrúnu Kristínu í innsendum tilnefningum kom m.a. fram:
„Guðrún Kristín eða Gunna Stína eins og hún er kölluð, hefur verið formaður blakdeildar Aftureldingar í rúm 20 ár og lyft grettistaki í blakinu í Mosfellsbæ og raunar á landinu öllu. 
Gunna Stína hefur einnig unnið óeigingjarnt sjálfboðastarf fyrir Blaksambandið og blak á Íslandi í mörg ár. Hennar hugsjón hefur að mestu leyti snúið að því að kynna blakíþróttina fyrir yngri iðkendum en hún situr í yngri flokkaráði Blaksambands Íslands. Í dag situr hún í stjórn BLÍ.
Gunna Stína kemur að nær öllu yngri flokka starfi innan blakhreyfingarinnar að einhverju leyti. Hún skipuleggur og er forsvarsmaður fyrir hæfileikabúðir Blaksambandsins einu sinni á ári, skipuleggur Íslandsmót yngri flokka og hún átti stóran þátt í að þróa Skólablak, en sú hugmynd hennar varð að veruleika eftir vinnu við að reyna að fjölga yngri iðkendum í blaki. Nú er skólablakið orðið einn stærsti viðburður blaks á Íslandi og er það unnið í samvinnu við Evrópska blaksambandið, þar sem skólar eru heimsóttir og haldin skólamót í blaki um allt land.”

Að þessu sinni bárust 163 tilnefningar um 112 einstaklinga úr 20 íþróttagreinum.  Sérstök valnefnd skipuð þeim Þóreyju Eddu Elísdóttur formanni nefndarinnar, Kristínu Rós Hákonardóttur, Margréti Láru Viðarsdóttur, Bjarna Friðrikssyni og Degi Sigurðarsyni fór yfir allar tilnefningarnar og valdi þessa þrjá einstaklinga þar úr.

ÍSÍ óskar Guðrúnu Kristínu innilega til hamingju með útnefninguna. Edvardi og Ólafi Elí er einnig óskað til hamingju með frábærar tilnefningar, en öll þrjú fengu sérstakt viðurkenningarskjal, kerfismiða frá Lottó og gjafabréf frá Íslandshótelum. Öllum þremur er þakkað fyrir þeirra ómetanlega framlag til íþróttastarfsins.

Myndir/Viktor Örn Guðlaugsson

Myndir með frétt